144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það mjög jákvæð þróun ef við ætlum að fara þá leið að leita í meira mæli leiðsagnar þjóðarinnar sem hv. þingmaður nefndi nokkrum sinnum í andsvari sínu í ýmsum málum, ekki bara þessu máli. Enda lögðum við þingmenn Vinstri grænna til að mynda til þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma um Kárahnjúkavirkjun af því að hv. þingmaður nefnir virkjanir. Við höfum verið með tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um Atlantshafsbandalagið sem var gengið í án þjóðaratkvæðagreiðslu og hefði betur verið greidd atkvæði um á sínum tíma þannig að já, við aðhyllumst þá stefnu að leita leiðsagnar þjóðarinnar í auknum mæli. Það er þá ekki aðeins í þjóðaratkvæðagreiðslum, þær eru að sjálfsögðu ekki eina leiðin, heldur í öllu því sem við vinnum að sem kjörnir fulltrúar hvort sem er sem þingmenn eða ráðherrar. Ráðherrar hafa ómæld tækifæri til að leita leiðsagnar þjóðarinnar með því að kalla eftir umsögnum um frumvörp og annað.

Ég tók sjálf þátt í mjög áhugaverðu verkefni um mótun byggðastefnu fyrir landið allt sem hét Sóknaráætlanir. Unnið var þannig að haldnir voru þjóðfundir í landshlutum þar sem saman komu íbúar og hagsmunaaðilar og veittu okkur leiðsögn um hvernig þeir vildu nákvæmlega að byggðastefna fyrir landið yrði mótuð, ekki bara á forsendum okkar þingmanna heldur einmitt á forsendum þeirra sem búa út um land. Ég er mikill fylgismaður þess að við leitum slíkra leiða og eins og ég segi eru þjóðaratkvæðagreiðslur ekki eina leiðin. Við höfum hins vegar lagt fram margar tillögur um slíkar atkvæðagreiðslur um ólík mál þannig að það er ekkert sérstakt við nákvæmlega þetta mál. Þetta á þvert á móti oft við um stór og umdeild mál sem getur verið gott að fá um leiðsögn þjóðarinnar.

Hvað varðar Evrópusambandið og okkar stefnu þá hef ég ítrekað sagt að við erum andsnúin aðild að Evrópusambandinu á þeim forsendum sem ég hef oft farið yfir og hef ekki tíma til að gera í þessu stutta andsvari. Hins vegar hefur það líka verið krafa okkar félaga að málið, (Forseti hringir.) þrátt fyrir að fólk sé gegn inngöngu, eigi heima hjá þjóðinni til að taka ákvörðun um og það er það sem mér fannst hv. þingmaður vera að spyrja um. (Forseti hringir.) Við höfum talið það geta farið saman og reynt að reka stefnu okkar út frá þeim sjónarmiðum