144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:49]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er kunnugt um atkvæðagreiðsluna 16. júlí 2009, að flokkar hér á þingi samþykktu það að ef til kæmi samningur yrði hann borinn undir þjóðina, allir voru því sammála. En líka samhliða þeirri tillögu var borin upp sú tillaga að leita leiðsagnar þjóðarinnar áður en farið yrði af stað. Og nú langar mig að spyrja hv. þingmann beinnar spurningar og óska eftir svari: Af hverju taldi hv. þingmaður þá á þeim tímapunkti með samstarfsflokk í ríkisstjórn sem var andvígur aðildarviðræðum og inngöngu í Evrópusambandið — hv. þingmaður þarf þá eingöngu að svara fyrir sitt leyti en ekki síns flokks — af hverju greiddi hv. þm. Katrín Júlíusdóttir þá atkvæði gegn því að njóta leiðsagnar þjóðarinnar um að fara af stað með aðildarviðræður að Evrópusambandinu, vegna þess að á þeim tímapunkti, virðulegur forseti, var klárlega meiri hluti þjóðarinnar fyrir því að fara í þær aðildarviðræður? Vegna þess að ástandið var einfaldlega þannig hjá þjóðinni. Ég spyr því hv. þingmann enn og aftur.