144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Forsendurnar hljóta alltaf að vera að ganga eins langt og við getum til að verja íslenska hagsmuni og tryggja að staða okkar innan Evrópusambandsins sé að minnsta kosti ekki lakari en annarra ríkja og að sérstaða okkar sem sjávarútvegsþjóðar verði tryggð með einum eða öðrum hætti. Það hljóta að vera forsendurnar sem við göngum út frá, og ég nefni sjávarútvegsmálin af því að hv. þingmaður nefndi þau sérstaklega. Sú staða hefur ekkert breyst á þessum árum, sú afstaða hefur ekki breyst. Það hlýtur að vera verkefni stjórnvalda hverju sinni að ná sem bestum samningum fyrir Ísland. Það eru þær forsendur sem við eigum að horfa til.

Í sjávarútvegsmálunum sé ég ekki neitt sem hefur breyst hvað það varðar að þetta eru enn þá grundvallarhagsmunir okkar Íslendinga, sjávarútvegsmálin. Við erum í einstakri stöðu hvað varðar þau mál innan Evrópu. Það hefur ekkert breyst í því, þannig að grundvöllurinn, sem við munum ganga til viðræðna á, hefur ekkert breyst.