144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:58]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Mig langar aðeins að velta upp einni spurningu. Nú er forsenda fyrir aðild að Evrópusambandinu að áhugi sé hjá meiri hluta landsmanna fyrir slíkri aðild. Skoðanakannanir hafa sýnt um margra ára skeið að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki aðild eða telur ekki hagsmunum Íslands best borgið innan Evrópusambandsins. Sá minni hluti sem segist vilja aðild — ég reikna með að hv. þingmaður tilheyri þeim minni hluta — setur býsna ófrávíkjanleg skilyrði fyrir þeim áhuga á aðild, setur í rauninni ansi mikil skilyrði fyrir því að fá undanþágu frá meginreglum Evrópusambandsins. Það hefur ekkert komið fram áþreifanlegt um að Evrópusambandið sé tilbúið að gera tilslakanir sem þarf til að sætta þennan minni hluta sem þó vill skoða aðildina. Þvert á móti hefur Evrópusambandið ítrekað bent á að Ísland verði að undirgangast núverandi löggjöf og tilslakanir verði aðeins tímabundnar ef þær verða nokkrar og eitthvað svoleiðis. Það er kannski einhver hluti landsmanna tilbúinn að ganga í Evrópusambandið án nokkurra skilyrða, án nokkurra fyrirvara, og taka þátt í þeirri vegferð sem þar er í gangi. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún tilheyri þeim hópi eða hvort hún þekki einhvern sem tilheyri þeim hópi.