144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tilheyri ekki þeim hópi og ég held að enginn Íslendingur tilheyri þeim hópi, sama hvort hann er hlynntur aðild eður ei, vegna þess að það er auðvitað þannig að þau skilyrði sem sett eru eru þau að hagsmunir Íslendinga séu í forgrunni í aðildarviðræðunum að öllu leyti og að við fáum ekki lakari niðurstöðu en önnur ríki.

Í öðru lagi verð ég líka að nefna að það er ekki rétt hjá hv. þingmanni hvernig hann nálgast þessi mál. Það er líka stór hópur af fólki sem vill fá svar við spurningum í gegnum aðildarviðræður, svar við spurningum um með hvaða hætti farið verði með sjávarútvegsmálin og landbúnaðarmálin. Og hvers vegna telur fólk að það geti komið eitthvað út úr samningunum sem geti skipt máli? Það er vegna þess að fordæmi eru um það í öllum aðildarviðræðum hingað til, þ.e. að það sem flokkast hefur undir grundvallarhagsmuni viðræðuþjóðar hefur fengið ákveðnar aðlaganir. Ég nefni til dæmis heimskautalandbúnaðinn sem varð til, þar sem er annað kerfi fyrir svæði fyrir ofan 62° norðlægrar breiddar sem felur í sér að styrkja má þann landbúnað meira en annan í Evrópu. Hann varð til í aðildarviðræðum Finna og síðan Svía. Það eru fordæmi úti um allt. Það eru mörg fordæmi fyrir því að tekið er undir sjónarmið sem varða grundvallarhagsmuni þjóða.

Það hefur heldur aldrei gerst í aðildarviðræðum eða í niðurstöðum aðildarviðræðna milli Evrópusambandsins og verðandi aðildarríkja að gengið sé gegn grundvallarhagsmunum þeirra. Aldrei nokkurn tímann. Þess vegna tel ég að við getum fengið ásættanlega niðurstöðu til dæmis hvað varðar sjávarútveginn vegna þess að það er algjörlega klárt og óumdeilt að sjávarútvegurinn (Forseti hringir.) flokkast til grundvallarhagsmuna okkar Íslendinga.