144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:01]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og þakka henni fyrir að svara þeirri spurningu hvort hún sé tilbúin til þess að taka þátt í Evrópusambandsverkefninu án nokkurra skilyrða. Ég heyri að hv. þingmaður setur mikla fyrirvara um grundvallarhagsmuni Íslands og reiknar með því að allir aðrir geri hið sama, þannig að það sé í rauninni enginn sem hafi áhuga á því að ganga í Evrópusambandið án þess að setja það skilyrði að Evrópusambandið veiti okkur undanþágu frá grundvallarreglum sínum.

Hins vegar var unnin skýrsla á vegum Hagfræðistofnunar Háskólans þar sem farið var yfir það hvernig hefði tekist að fá undanþágur frá þeim meginreglum. Það var ekki mikið. Það virtist ekki hafa tekist á nokkurn hátt, þess vegna strandaði umsóknin.

Síðasta ríkisstjórn áskildi sér rétt til þess að slíta viðræðunum hvenær sem væri, að það þing og ríkisstjórnin gæti slitið viðræðunum og væntanlega þá án þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það. Hefur núverandi ríkisstjórn ekki sama rétt til að slíta (Forseti hringir.) viðræðunum?