144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður veit það jafn vel og við hin að umsóknin strandaði ekki á því að við næðum ekki fram einhverjum atriðum tengdum sjávarútvegskaflanum. Sú skýrsla sem hv. þingmaður nefndi — það er auðvitað alveg rétt að ekki eru veittar beinar undanþágur frá lögum. Hins vegar hafa orðið til breytingar á þeim lögum í aðildarviðræðuferlinu, t.d. ný skilgreining á hinum svokallaða heimskautalandbúnaði. Þar eru sérstök landsvæði þar sem aðrar reglur gilda.

Í skýrslu sem samflokksmaður hv. þingmanns stóð fyrir hér á einhverjum kjörtímabilum á undan okkur, Halldór Ásgrímsson, þegar hann var utanríkisráðherra, kom fram mjög góð greining á því með hvaða hætti við gætum skilgreint hafsvæðið í kringum Ísland sem sérstaka stjórnsýslueiningu, byggð á mjög góðum rökum, og náð því þannig fram með sambærilegum hætti og (Forseti hringir.) heimskautalandbúnaðurinn varð til.

Það eru því margar leiðir færar, mörg fordæmi. Það er þröngt sjónarmið hv. þingmanns að horfa bara til (Forseti hringir.) einnar setningar í skýrslunni um undanþágur sérstaklega (Forseti hringir.) þegar við höfum mýmörg dæmi um breytingar sem gerðar hafa verið á regluverki Evrópusambandsins (Forseti hringir.) í tengslum við aðildarviðræður.