144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:15]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðu hv. þingmanns. Er ekki rétt skilið hjá mér að síðasta ríkisstjórn hafi sótt um aðild að Evrópusambandinu án nokkurra fyrirvara? Hún leggur inn umsókn alveg fyrirvaralaust, Ísland sækir um aðild að Evrópusambandinu og það er hvergi í þeirri umsókn, svo ég sjái, vitnað til neinnar þingsályktunartillögu, sem þó var með mörgum fyrirvörum. Er hv. þingmaður sáttur við að sótt hafi verið um aðild að Evrópusambandinu af síðustu ríkisstjórn algjörlega fyrirvaralaust? Var það í samræmi við þá þingsályktunartillögu sem hér var gerð? Tekur Evrópusambandið yfirleitt við aðildarumsóknum sem settar eru fram með fyrirvörum? Áskildi síðasta ríkisstjórn sér ekki fullan rétt til þess að hætta aðildarviðræðum hvenær sem væri án þjóðaratkvæðagreiðslu? Og hvers vegna má sú ríkisstjórn sem nú er ekki njóta sama réttar?

Ég vil gjarnan fá svör við þessum spurningum.