144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn hafa verið mjög vaklandi í afstöðu sinni til Evrópusambandsins. Árið 2009 vildi Framsóknarflokkurinn, annar tveggja flokka í íslenskri pólitík, sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hann vildi það. Eftir kosningar 2009 snerist meiri hluti þingflokks Framsóknarflokksins gegn sinni eigin tillögu. Þrír voru hins vegar fylgjandi því að sækja um aðild á grunni meðal annars samþykktar Framsóknarflokksins, sem var mjög góð og byggð á langvarandi vinnu.

Fyrir kosningar 2013 gaf Framsóknarflokkurinn síðan í skyn í öllu falli að kosið yrði um þetta mál, um áframhald viðræðnanna, sett í stjórnarsáttmála að gert væri hlé á þeim, en vill núna slíta. Það er mjög erfitt að rýna í hver raunveruleg Evrópustefna þessara flokka er og hvernig þeir vilja meðhöndla þetta mál. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði gagnmerka grein árið 2008 um að við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, (Forseti hringir.) taka upp evru. Núna vill hann það ekki. (Forseti hringir.) Það er varhugavert að láta utanríkisstefnu (Forseti hringir.) þjóðarinnar stjórnast af duttlungum og hringlandahætti þessara flokka í Evrópumálum.