144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka prýðilegar spurningar. Við skulum hafa í huga að í þessu tiltekna máli voru það hvorki meira né minna en 53.555 sem skrifuðu undir áskorun um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Mér finnst það vera mjög skýr leiðsögn. Þessi undirskriftalisti var í gangi í 63 daga og mér skilst að það séu um 22% þjóðarinnar sem kalla eftir því að við förum í þessa vegferð.

Auðvitað er það mjög bagalegt að flokkur hv. þingmanns og Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá væri virt að vettugi á síðasta þingi, það var mjög bagalegt. Ef svo hefði ekki verið hefðum við hér mjög skýrar leikreglur.

Það þarf töluvert mikið til, og það þekki ég mjög vel, að fá svona marga til að skrifa undir áskorun um að gera eitthvað hér á Alþingi, 22% er töluvert mikið. Og forseti vor hefur skapað ákveðna umgjörð um það hvenær gjá er á milli þings og þjóðar svo að hann þurfi til dæmis að hafna lögum frá Alþingi. Það er töluvert minni gjá en þessi 22% sem hafa skorað á okkur að fara í gang með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þó svo að þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki bindandi, ef meiri hluti fæst, hvort sem hann er naumur eða mikill, þá finnst mér að okkur beri að fara eftir niðurstöðunni. Við getum ekkert farið að breyta leikreglunum í miðri á eins og gert var á síðasta þingi varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.