144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég velti fyrir mér, nú hef ég skynjað á hv. þingmanni að hún hafi að minnsta kosti efasemdir, ef hún er þá ekki andvíg því að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu, að minnsta kosti hef ég greint hjá henni efasemdir í þá átt og vil ekki leggja henni orð í munn með það. Mér er jafnframt ljóst að hún er mjög eindregið fylgjandi því að tillagan sem er til umræðu nái fram að ganga, þ.e. að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um spurninguna hvort halda eigi áfram viðræðum.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti upplýst mig um hvað hún muni leggja til í þeim efnum, þ.e. hvort hún muni taka þá afstöðu, verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu, að hvetja til þess að kjósendur svari spurningunni með jái eða neii, hvort það sé hennar — hvað eigum við að segja — pólitíska stefna að halda eigi viðræðum áfram á þeim grundvelli sem þær fóru fram á síðasta kjörtímabili.