144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það hefur ekkert breyst, þannig að við höldum bara áfram okkar striki. Það hefur ekkert breyst. Sent var uppsagnarbréf sem tæknilega séð, miðað við hvað ég heyri hér heima, hefur enga þýðingu, en einhverjir erlendis virðast halda að svona „Dear John“-bréf hafi einhverja meiri þýðingu en það hefur hér heima. Þetta er einhvern veginn mjög skringilegt mál allt saman. Ég held að við höldum bara áfram okkar striki ef þjóðin segist vilja halda áfram, þá höldum við okkar striki.

Ég var í utanríkismálanefnd þegar allt þetta mál var í ferli og mér fannst vera almenn sátt um það meðal allra þingflokka hvernig það var úr garði gert. Ég sé því enga ástæðu til þess að breyta kúrsinum eitthvað þegar við erum á fullri ferð.

Svo langar mig líka að nefna af því að mér finnst svo athyglisvert og er oft fyndið að mér finnst sumir þingmenn einhvern veginn halda að þeir séu völvur og sjái fyrir hvernig hlutirnir verða. Það er ekki okkar hlutverk. Það var gert kannski og er hluti af ráðgjöf til ýmissa á Grikklandi á tímum völvunnar í Delfí. En ég verð líka að segja að mér finnst gríðarlega mikilvægt, svo ég segi það enn og aftur, að við séum duglegri að kalla eftir vilja þjóðarinnar, sér í lagi þegar svo mikill meiri hluti hennar kallar eftir því að við bregðumst við.

Síðan að lokum í þessum fyrsta legg þessara umræðna um ályktunina, þá vil ég skora aftur á alla þá þingmenn sem hafa stutt nánast nákvæmlega eins ályktun með pínulítið öðruvísi greinargerðum um að styðja og hjálpa okkur að koma málinu til lykta á þessu þingi.