144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sat sjálfur á fundi með Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, sem vildi ekki um neitt annað tala en makríl þangað til utanríkisráðherra Íslands stóð upp, bara svo að það liggi algjörlega (VigH: … Jón Bjarnason?) ljóst fyrir. Og ég vil líka segja það, af tillitssemi við minn fyrrverandi félaga og vin, Jón Bjarnason, þó að við höfum verið á öndverðum meiði, að ég tel ekki að framganga hans hafi orðið til þess að seinka þessum viðræðum. Það voru aðrir hlutir. Það var makríllinn fyrst og fremst. En hins vegar get ég sagt að ekki var það til þess að flýta þeim.

Að því er undanþágur varðar, sem hér bárust í tal í fyrra andsvari, þá skulu menn bara skoða skýrslu sem var gerð af Evrópunefnd undir forustu Björns Bjarnasonar. Ég sat í henni. Þar er getið á fjórða tugar undanþágna um landbúnað. Það kom skýrt fram í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður taldi til að hægt er að fá fram undanþágur. Það var sérstaklega rætt við höfundinn um heimskautalandbúnaðinn. Hvað getur sú undanþága varað lengi því að hún er tímabundin?(Gripið fram í.) Nei. Jafn lengi (Forseti hringir.) og þær aðstæður ríkja sem kalla á undanþáguna. (Forseti hringir.) Hvað heldur hv. þingmaður að það sé langt? Svona þúsund ár þangað til fer að hlýna í Evrópu?