144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Áður hefur komið fram í þessari umræðu að í þeim skýrslum sem voru lagðar fram í fyrra í utanríkismálanefnd að ýmis efni sem menn töldu mjög erfið fyrir fram, eins og landbúnaðarmál, reyndust að mati skýrsluhöfunda ekki vera sú fyrirstaða sem áður var talið. Erfiðasta verkefnið og torfærasti hjallinn að klífa eru þá sjávarútvegsmálin og þar eru það nokkur mál. Ég sagði áðan að ég teldi að erfiðast hefði sennilega verið fyrir Íslendinga að ná viðunandi lausn varðandi réttinn til gagnkvæmra fjárfestinga, (Gripið fram í.) erfiðast, ekki ókleift.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort eitthvað af þessu sé umsemjanlegt. Ja, þá held ég að hann geti hvorki fengið mig sem þingmann í stjórnarandstöðu né hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli eða nokkru öðru miklu hagsmunamáli til þess að fallast á að eitthvað af samningsmarkmiðunum sé umsemjanlegt.