144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að við séum loks að ræða tillögu flokkanna sem eru í minni hluta á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort haldið skuli áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Því er ekki að leyna, frú forseti, að ég er einlægur Evrópusambandssinni. Ég ætla ekkert að fara í grafgötur með það að ég tel að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og stefna flokksins sem ég er þingmaður fyrir er að hagsmunum Íslands sé best borgið innan Evrópusambandsins. Það er auðvitað ekki absalút. Við hljótum að vilja sjá aðildarsamninga, en fyrst og fremst þarf náttúrlega að fara í samningaviðræður og berjast fyrir hagsmunum Íslendinga. Það sem einna helst er flókið og krefst útsjónarsemi og hörku eru sjávarútvegsmálin.

Ég ætla að koma aðeins inn á þjóðaratkvæðagreiðsluna á eftir, en fyrst vil ég segja af hverju ég er einlægur Evrópusambandssinni. Ég tel að mikilvægt sé fyrir Íslendinga að vera fulligildir þátttakendur í því ríkjabandalagi 28 ríkja sem Evrópusambandið er. Við erum í nánu samstarfi við þau ríki á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins, og innleiðum hér í lög stóran hluta af tilskipunum og reglugerðum Evrópusambandsins án þess að hafa áhrif á hvernig þau mál líta út þegar fjallað er um þau á vettvangi Evrópusambandsins. Við höfum auðvitað ýmsar leiðir til áhrifa, en þær eru flóknar og vandmeðfarnar og krefjast mikils mannskapar eins og hefur sýnt sig. Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra lýst því yfir að það sé mikilvægt að auka mannafla Íslands í Brussel til þess að gæta hagsmuna Íslands þar. Það hlýtur að vera skynsamlegt að velta því fyrir sér, ef við viljum á annað borð vera hluti af fjórfrelsinu og Evrópska efnahagssvæðinu, hvort ekki sé eðlilegt að stíga skrefið til fulls.

Ég veit að Evrópusambandið er ekki fullkomin skepna. Þar eru að mínu mati of mikið af hægri mönnum. Þar hefur frjálshyggjan fengið að leika um of lausum hala (Gripið fram í: Ha?) en þannig er að í flestu samstarfi þarf að eiga samskipti við og samninga við fólk sem deilir ekki endilega með manni lífssýn og skoðunum. En í sambandinu er líka fjöldinn allur af fólki sem deilir hugsjónum jafnaðarmanna um samvinnu, ekki síst á sviði umhverfismála, öryggismála og fleiri slíkra þátta og benda má á að flestar framfarir á sviði umhverfismála og -verndar hér á landi hafa verið vegna innleiðingar á tilskipunum frá Evrópusambandinu.

Evrópusambandið var í grunninn stofnað sem friðarbandalag eftir hræðilegar styrjaldir í Evrópu í gegnum söguna og svo á 20. öldinni. Í stað þess að berjast með vopnum vegna hagsmunaárekstra var sambandið leið til þess að leita samninga í gegnum viðskipti og aukin samskipti til að efla frið í álfunni. Evrópusambandið hefur mjög metnaðarfullar áætlanir og prógrömm um þróunarmál innan álfunnar á sviði atvinnumála, velferðarmála og ekki síst á sviði byggðamála. Það væri áhugavert fyrir Ísland, okkar dreifbýla land, með mjög fámennar og að mörgu leyti veikar byggðir víða um land sem mundu njóta góðs af byggðaáætlunum Evrópusambandsins.

Það hefur stundum verið sagt að Samfylkingin sé eins máls flokkur af einhverjum andstæðingum Evrópusambandsins sem vilja gera lítið úr okkur og eina málið sem skipti samfylkingarfólk máli sé Evrópumálið. Það er auðvitað algjör og helber vitleysa því Samfylkingin — Jafnaðarmannaflokkur Íslands stendur fyrir grunngildi jafnaðarhugsjónarinnar, frelsi, jafnrétti og bræðralag. Það er ekki frelsið til þess að hygla vinum og vandamönnum og haga sér eins og maður vill, heldur frelsið frá fjötrum fátæktar og kúgunar stétta sem hafa í krafti auðs síns og valda tækifæri til að valta yfir hagsmuni almennings. Þetta er það sem Samfylkingin stendur fyrir, jöfnuður og velsæld, og við teljum aðild að Evrópusambandinu fýsilegan kost til þess að ná þeim markmiðum.

Svo er það auðvitað þannig að Ísland mun ekki sökkva í sæ þótt við verðum ekki aðilar að Evrópusambandinu. Við munum halda áfram að vera sjálfstætt fullvalda ríki — reyndar má deila mjög alvarlega um fullveldið þegar við afsölum því til bandalags sem við eigum ekki aðild að í jafn umfangsmiklum mæli og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið kallar eftir. Samfélag okkar hér mun halda áfram en ég tel að það verði ekki jafn gott samfélag. Ég held að við höfum tækifæri til þess að verða betra samfélag í nánari samvinnu við aðrar þjóðir. Og þá ætla ég nú ekki að gera lítið úr því hverju það mundi skipta að vera hluti af myntbandalaginu um evru og vera með gjaldmiðil sem hentar opnu, litlu hagkerfi.

Það er áhyggjuefni að ríkisstjórn sem er jafn hatrömm út í þá hugmynd að vera í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, það virðist vera mjög djúpstæð angist gagnvart aðildarviðræðunum, skuli þá ekki vera með raunhæfar áætlanir á sviði peningamála fyrir Ísland. Það er umhugsunarefni hvernig við ætlum að haga okkar málum til framtíðar því það er auðvitað ljóst að við munum ekki aftur verða með fljótandi gjaldmiðil eins og við vorum með fyrir hrun. Við verðum í einhvers konar höftum með krónuna þó að þau verði kannski ekki eins mikil og nú eru. KPMG hélt um daginn fund varðandi leiðir út úr höftunum með upptöku evru. Að skýrslugerðinni og vinnunni þar í kring stóðu aðilar vinnumarkaðarins, það var Viðskiptaráð, það voru Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, stórir aðilar sem eiginlega gengu út frá því sem vísu að þetta væri eina raunhæfa leiðin til þess að komast út úr haftaástandi. Ríkisstjórnin kennir sig við framkvæmdir, sem virðast nú aðallega vera einhvers konar eyðileggingarstarfsemi því ekki starfar hún í sátt við atvinnulífið, en á þéttsetnum fundi um þessi mál hjá KPMG mátti ekki glitta í einn einasta stjórnarliða, enda er þetta svo vandræðalegt mál fyrir ríkisstjórnina að hún vill ekki tala um það og telur sig geta stungið höfðinu í sandinn. En ef hugmyndir um afnám hafta eiga að ganga eftir þurfa að fylgja því raunhæfar áætlanir í peningamálum þjóðarinnar.

Frú forseti. Það má ljóst vera að ég styð heils hugar að ákalli 53.555 einstaklinga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna verði svarað með þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég styð það heils hugar og vona að þetta mál komi sem fyrst aftur til atkvæðagreiðslu í þingsal.