144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:07]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þetta svar. Hv. þingmaður spyr hvernig það hefði verið ef við hefðum haft evru þegar bankahrunið mikla varð hér, hvað hefði gerst þá. Mig langar að svara því sem ég held að hefði gerst.

Ég held að þá hefði svipað gerst og á Kýpur. Þar varð bankahrun og þeir voru með evru og allir þeir sem áttu innstæður í kýpverskum bönkum hófu að flytja þær frá bönkunum sem þeir töldu vera að hrynja. Það varð mikill fjármagnsflótti frá Kýpur til Lundúna, Sviss, Þýskalands. Þegar bankarnir, sem eru einkabankar, tæmast þarf að leita á náðir seðlabankans. Seðlabankinn getur ekki prentað evrur heldur verður hann að fá þær að láni frá Evrópska seðlabankanum, sem fór fljótt að krefjast ýmiss konar ríkisábyrgða. Ríkissjóður þurfti því að skuldsetja sig gríðarlega til að leyfa þetta útstreymi út úr bönkunum. Það varð ekki gert nema með því að veðsetja lífeyrissjóðina, auðlindirnar, gaslindir Kýpur voru settar að veði og ýmsir innviðir, annars hefðu þeir ekki fengið enduráfyllingu af evrum á kerfi sem á þurfti að halda svo að ríka fólkið gæti farið með innstæður sínar úr landi. Að lokum voru sett úttektarhámörk og síðan voru innstæðurnar skrifaðar niður.

Þetta er það sem hefði getað gerst hjá okkur líka, nema þá stæðum við eftir miklu skuldsettari við ríkissjóð. Þetta gerðist hjá Írum. Þeir eru með miklu skuldsettari ríkissjóð miðað við stærð bankakerfi þeirra, fall bankakerfis þeirra og allt sem af því leiddi.

Þegar þjóð verður fyrir efnahagsáfalli gerast engir góðir hlutir, þeir verða verri og langdrægari og aðlögun er miklu erfiðari ef þjóðin hefur ekki sinn eigin sjálfstæða gjaldmiðil.

Ég vil benda á vegna skýrslu KPMG um leið úr höftum með evru — sem er einhvers konar hugarflug um hvað gæti gerst ef við gætum fengið evru á morgun, sem er náttúrlega alls ekki í boði, það tekur mörg ár að taka hana upp — að þetta hefði þetta gerst nákvæmlega svona: Ríkissjóður hefði þurft að tryggja og gangast í ábyrgðir fyrir öllu útstreymi peninga þessara auðmanna sem tóku peningana sína á föstu gengi út úr landi. Hverjir sitja eftir? Verkalýðurinn sem hefur ekki viðurværi sitt af fjárfestingum heldur af launavinnu. (Gripið fram í.)