144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á afar erfitt með að skilja þingsályktunartillögu af þessu tagi og velti fyrir mér hvernig yfir höfuð sé hægt að greiða atkvæði um framhald viðræðna sem þegar hefur verið hætt. Ég spyr hvort hv. þingmaður geti ekki tekið undir það að það sé svo miklu eðlilegra — með hliðsjón af upphaflegri umsókn um aðild, sem var án nokkurs fyrirvara, það var bara aðild að bandalaginu — gagnvart almenningi að kjósa einfaldlega um það hvort þjóðin vilji ganga í Evrópusambandið eins og það liggur fyrir.

Hér er alltaf verið að tala um að sjá samninginn, við erum búin að fara oft yfir það. Það er löngu hætt að semja um nokkuð. Það gilda ákveðnar grunnreglur og við vitum öll að í gildi eru ákveðnar grunnreglur Evrópusambandsins, menn semja sig ekkert frá þeim. Það er löngu vitað, þeir neita því ekki einu sinni í Evrópusambandinu. Er ekki út frá þeim staðreyndum miklu eðlilegra að kjósa um það hvort þjóðin vilji vera aðili að Evrópusambandinu eins og það lítur út í dag og grunnur þess er byggður á.