144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:54]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Kristján L. Möller að tvennu. Þingmaðurinn talaði um að þingsályktunartillagan væri einhvers konar sátt, það fælist sáttatilboð í því að kjósa um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum. Ég vil spyrja þingmanninn: Er ekki miklu meiri sátt í því að við kjósum um það hvort þjóðin vilji ganga í ESB? Við sóttum um 2009, það var umsókn um að ganga í ESB, ekki bara um að fara í aðildarviðræður, þetta var umsókn (Gripið fram í.) og það er ákveðinn vilji sem felst í umsókn. Ef ég sæki um aðild að Samfylkingunni þá vil ég fara þar inn. (ÖS: Þú ferð ekki í samningaviðræður og kýst ekki um samning.)(Gripið fram í: Umsóknin …) (Forseti hringir.) Umsóknin liggur fyrir, þar er enginn fyrirvari þannig að það er miklu meiri sáttaleið að kjósa einfaldlega um það hvort menn vilji ganga inn vegna þess að umsóknarferlið felst í því. Síðan getum við kosið aftur, þegar búið er að ræða um hvað við fáum langan tíma til að aðlaga okkur o.s.frv., um hvort það sé ásættanlegt fyrir okkur.

Svo vil ég spyrja í öðru lagi: Telur hv. þingmaður enn þá forsendur fyrir því að halda aðildarviðræðum áfram, að kjósa um þær núna þegar þeim hefur verið hætt? Um hvað eigum við að fara að ræða? Hvaða þýðingu hefði þjóðaratkvæðagreiðsla um að halda áfram viðræðum? Mér er það óskiljanlegt miðað við þær forsendur sem eru núna til staðar.