144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar sótt er um aðild að Evrópusambandinu og ríki ganga í það þá er það alltaf að undangengnum samningaviðræðum. Það er vegna þess að það geta orðið einhverjar tilhliðranir, það má kalla það sérlausnir, undanþágur eða hvað sem er, ég bara bið þingmanninn um að halda áfram að veifa pappírnum vegna þess að það hefur ekki nokkur áhrif á mig. [Kliður í þingsal.] — Já, já. Er hægt að stoppa þessi fíflalæti hér í þingsalnum?

(Forseti (SJS): Kyrrð í þingsalnum.)

Ég trúi því að í samningaviðræðum við Evrópusambandið náum við samningi sem sé góður og farsæll fyrir íslenska þjóð, fyrir íslenskan efnahag og fyrir framtíð landsins. Ég trúi því að undangengnum samningaviðræðum. Hvort þingmaðurinn kallar það fyrirvaralaust eða hvað, hann má nota þau orð sem hann vill um það. En á mannamáli er það þannig að ég trúi því að við náum samningum við Evrópusambandið sem íslensk þjóð geti vel við unað. En ég þarf að sjá þann samning. Ég trúi því að við fáum hann en ég þarf að sjá hann.