144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:16]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það er eitt annað mál sem mig langar að ræða við hv. þingmann en það er samspil hrunsins og þessarar aðildarumsóknar, það var á mörgum sviðum. Í fyrsta lagi hefði kannski ekki verið almennur áhugi á að sækja um aðild nema vegna þess að landið hafði orðið fyrir einu stærsta bankahruni sem nokkurn tíma hefur orðið í mannkynssögunni, eitt af tíu stærstu og dýrustu bankahrunum sem orðið hafa. Ég hef vissan skilning á því að stjórnmálamenn hafi verið nánast skelfingu lostnir að stýra skipinu í þeim ólgusjó.

Er það rétt, sem fram hefur komið í ræðum þingmanna hér, að Evrópusambandið hafi gert það að skilyrði fyrir því að á móti aðildarumsókn Íslands yrði tekið að gerður yrði samningur um Icesave-kröfuna, að Íslendingar mundu taka að sér skuldir fallinna einkabanka, var það ein af þeim kröfum sem Evrópusambandið gerði að skilyrði fyrir því að taka á móti aðildarumsókninni? Hvers vegna kemur svona oft fyrir í framvinduskýrslunum að enn eigi eftir að leysa það vandamál sem er Icesave-samningurinn? Það kom náttúrlega babb í bátinn. Ríkisstjórninni tókst að koma fyrsta Icesave-samningnum inn í þingið og stóð við sitt. Evrópusambandið tók þá við aðildarumsókninni en svo kom babb í bátinn. Þjóðin vildi ekki fallast á að taka á sig skuldir einkabanka. Eftir það kemur iðulega fram í framvinduskýrslunum að það sé vandamál. Var það vandamál sem þurfti að leysa áður en hægt var að ganga í ESB?