144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, tillögu sem flutt er af formönnum allra stjórnarandstöðuflokkanna og náðist ekki að ræða fyrir páska en er nú komin á dagskrá.

Það sem mig langar að gera er að taka þessa umræðu svolítið út frá ástandinu í landinu núna og jafnframt að skoða málið með tilliti til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá vorinu 2013 eftir kosningar þar sem núverandi stjórnarflokkar unnu góðan sigur, tóku við stjórninni og lögðu fram stefnumál sín.

Eitt af því sem mér finnst mikilvægt að ræða í tengslum við þetta er texti sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Það er fróðlegt að skoða málið í tengslum við þessa stefnuyfirlýsingu. Nákvæmlega það sem hefur gerst í ESB-málinu eftir kosningarnar er að það hefur verið sett í ótrúlegan hnút. Loforð sem gefin voru í aðdraganda kosninganna um hvernig skyldi fara með málið voru svikin. Þjóðin rís upp bæði með öflugum mótmælafundum, með undirskriftum á milli 50 og 60 þús. manna sem óska eftir því að málið verði klárað. Öllu er hér hleypt í bál og brand. Þannig er búið að viðhalda málinu, fyrst með tillögu sem var rædd í fyrra og skýrslu sem átti að leggja fram og ræða í þinginu. Um leið og hún var komin inn í þingið var kastað inn tillögu um að slíta viðræðum. Hún fer til utanríkismálanefndar, málið aldrei klárað. Síðan hefur málið verið á leiðinni aftur inn í þingið með nýrri slitatillögu og endar með einhverju vandræðalegu bréfi sem enginn skilur eða a.m.k. er erfitt að vita hvaða skilning menn leggja í það, og viljandi er reynt að sniðganga Alþingi Íslendinga. Þetta hefur leitt til þess að við erum komin í miklar ógöngur með mál sem er dæmigert mál sem við þurfum að finna einhverja lausn á.

Það er fleira sem sagt er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Talað er um að „eyða pólitískri óvissu“, svo ég vitni orðrétt í yfirlýsinguna. Það er líka rætt um að unnið verði að, með leyfi forseta, „víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.“ Er verið að vinna að þessu? Hver er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar? Hvar ætlum við að staðsetja okkur í atvinnu- og menntamálum, hver er stefnan þar? Eftir þessu var nýlega kallað á fundi hjá Vinnumálastofnun þar sem verið var að ræða um horfur á vinnumarkaði á næstu tveimur árum, ekki er þó horft lengra fram í tímann. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum? Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við brotthvarfi fyrirtækja af landinu? Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við upplýsingum um flutninga fólks af landinu? Það hafði tekist að snúa við flótta frá Íslandi eftir hrunið sem var býsna mikill, jöfn staða náðist árið 2013, en á árinu 2014 fluttu 780 fleiri íslenskir ríkisborgarar úr landi en þeir sem fluttu til landsins. Kemur fólk heim eftir nám, t.d. fólk í heilbrigðisstéttunum? Hverjar eru horfur á vinnumarkaði?

Samkvæmt þeirri skýrslu sem ég vitnaði í frá Vinnumálastofnun um horfurnar næstu árin, 2015–2017, mynduðust 2.700 ný störf á Íslandi á árinu 2014. Þeim störfum gegnir fólk sem kemur hingað erlendis frá til að vinna, erlendir ríkisborgarar sem styðja okkar uppbyggingu. Það eru ekki Íslendingarnir sem bætast við. 96% af því sem bættist við á árinu 2014 er í ferðaþjónustu. Það er eini vaxtarbroddurinn á Íslandi.

Við erum að ræða ESB og oft er þá sagt: Viljið þið bara ræða um ESB? Af hverju ræðið þið ekki ástandið í þjóðfélaginu í dag? Skoðum bara annað í landinu í dag. Hvernig líta húsnæðismálin út? Hver er vaxtakostnaðurinn á Íslandi? Hvernig er með verðtrygginguna? Á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins var samþykkt að verðtrygging á neytendalánum skuli afnumin í framtíðinni. Hvað með þá 1.600–1.800 milljarða, ég veit ekki alveg hver talan er, 1.400–1.600 milljarða í verðtryggðum lánum, húsnæðislánum í íslenska kerfinu? Hvað með launin og vinnutímanum? Hver eru launin á íslenskum vinnumarkaði? Af hverju erum við með bullandi vinnudeilur í augnablikinu? Er það í anda þess að hér eigi að ná samstöðu, víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar? Það stendur ekki steinn yfir steini í framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar né heldur er hún að framkvæma eigin stefnuyfirlýsingu. Það kemur kannski ekkert á óvart ef við skoðum það í samhengi við þetta mál þar sem menn fara í kosningabaráttu, lenda í vandræðum með umræðuna um ESB, fara út í að lofa, báðir stjórnarflokkarnir lofa mjög skýrt að málið varðandi aðildarumsóknina að Evrópusambandinu verði leitt til lykta af þjóðinni. Og takið eftir að það loforð er gefið löngu eftir að aðildarumsóknin fer í gang. Menn geta rætt um hvað fyrri ríkisstjórnarflokkar gerðu, en loforðið er gefið í aðdraganda kosninganna árið 2013, og raunar eftir kosningar líka, og það er algerlega svikið.

Ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt að það er dapurlegt að þurfa sem þingmaður að hlusta á þá gagnrýni á stjórnmálastéttina að ekki sé orð að marka hana og hún gefi aðeins loforð til að kalla eftir atkvæðum.

Þegar við ræðum ESB þá er ástæða til að skoða reglubundnar kollsteypur hér á landi. Við getum ekki bara talað um hrunið. Ég fjárfesti sjálfur í húsi 1979. Eigum við að ræða um verðbólguna 1981–1983, sem var um 100%? Eigum við að ræða um hana 1991, þegar kreppan verður í Skandinavíu? Eigum við að ræða hana í kringum 2000? Það er búið að gera eignaupptöku í þessu landi aftur og aftur vegna gjaldmiðilsins, vegna stjórnar peningamála hjá mörgum ríkisstjórnum en mest þó undir stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Það er búið að nota gengisfellingu eins og í hruninu þegar gjaldmiðillinn hrundi og gengið féll þar með og færði á einu bretti gríðarlegar upphæðir frá launþegum yfir til atvinnulífsins, sérstaklega útflutningsatvinnuveganna. Við eigum langt í land með að ná kaupmáttarstiginu sem var fyrir hrun.

Ég nefni þetta allt vegna þess að það þarf að skoða málið í heildarsamhengi. Við lendum í ógöngum við að reyna að ná sátt um hvernig við leiðum mál til lykta. Þess vegna kemur stjórnarandstaðan með þessa tillögu. Gott og vel. Þið vilduð á sínum tíma tvöfalda atkvæðagreiðslu. Við vorum á móti henni. Við töldum nóg að fara í atkvæðagreiðslu þegar samningur lægi fyrir, ef hann næðist. Nú bjóðum við þetta: Tökum þetta stóra ágreiningsmál og leggjum það fyrir þjóðina og fellum okkur við úrskurð hennar. Hvernig viljið þið haga framhaldinu? Það getur vel verið að ekki muni nema einu, tveimur, þremur, fjórum atkvæðum en við skulum bara lúta því, svæfa þá málið til langs tíma ef menn vilja ekki halda áfram viðræðum, vilja ekki vera aðildarríki. Nýleg könnun MMR bendir til að það sé mjög mjótt á mununum. Tökum bara þá afstöðu að reyna að leysa þetta mál þannig að við séum ekki endalaust að glíma við það, þetta stórmál fyrir íslensku þjóðina sem hefur ekki með nokkru móti verið hægt að ná að leiða til lykta.

Við fáum skýrslur eftir skýrslur og það er forvitnilegt að skoða það þegar menn tala um að við vitum nákvæmlega hvað kemur út úr þessu. Af hverju var verið að vinna rýnivinnu? Af hverju var verið að setja samningsmarkmið? Af hverju voru þau samningsmarkmið mjög hörð ef við hefðum talið að ekki væri ástæða til að sjá hvað kæmi út úr samningum? Ég geri mér alveg grein fyrir því að stærsta málið sem ræður afstöðu margra og ræður minni afstöðu er íslenskar auðlindir, sjávarútvegurinn og að hluta til landbúnaðurinn. Ég held að það verði ekki vandamál með neina aðra þætti. Er til of mikils ætlast að leyfa a.m.k. þjóðinni að velja um það hvort við höldum áfram og reynum að fá samninga upp á borðið og reyna að feta þá leið? Ef þjóðin hafnar því þá er málið komið út af borðinu. Ef ekki, þá höldum við áfram þessari vinnu. Er til of mikils að ætlast eða er það ómöguleiki að ríkisstjórnin vinni áfram að máli, jafnvel þó að menn séu persónulega á móti því, ef þjóðin vill það? Ég tel svo alls ekki vera. Ég tel heldur ekki að ríkisstjórnir eigi að fara frá vegna þess að mál séu lögð fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við verðum að þola og þora að vinna eftir vilja þjóðarinnar. Það er það sem okkur vantar í lýðræðislegri umfjöllun. Ég skora á stjórnarflokkana sem börðust fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn og (Forseti hringir.) tvöfalda atkvæðagreiðslu að styðja tillögu stjórnarandstöðunnar um að þjóðin ákveði framhaldið.