144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:34]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða. Ég held þetta sé einmitt umræðan um það hvort sé nú hrikalegra, þegar í óefni er komið, gengisfelling eða innri gengisfelling. Grikkir eru að prófa sig áfram með innri gengisfellingu. Hún tekur mörg, mörg ár og bitnar aðallega á þeim sem eru launamenn. Eignafólkið getur forðað sér úr landi með sínar eignir. Það lifir af því að reka fé sitt á beit þar sem hagvöxtur er mestur og hann er ekki mestur í Grikklandi. Eftir sitja launamennirnir og takast á við launalækkanir og skert lífskjör. Það er það sem kemur með aðild að myntbandalagi.

Enn aðeins til að hugga hv. þingmann, af því að hann hefur áhyggjur af stöðunni á Íslandi, hún gæti verið betri, þá er ég alveg sammála því að margt gæti verið betra. Við höfum vissulega orðið fyrir miklu áfalli en það er samt þannig að samkvæmt Social Progress Index fyrir árið 2015, sem er virtur samanburður á því hvernig jöfnuður er og hvernig hefur gengið að bæta lífskjör í öllum ríkjum heims, er Ísland í 4. sæti yfir þau ríki sem hafa náð lengst. Löndin fyrir ofan okkur eru ekki í Evrópusambandinu eða alla vega ekki með evruna. Noregur er efstur, í öðru sæti er Svíþjóð, Sviss, síðan eru Nýja-Sjáland og Kanada fyrir neðan okkur. Eitt af þessum ríkjum er í Evrópusambandinu, það er Svíþjóð. Þeir hafa ekki bundið sína mynt við evruna heldur leyfðu henni að falla til að auka samkeppnishæfni sína og síns atvinnulífs eftir áfallið.

Ég held að það sé alveg rétt að taka umræðuna og ég fagna því að hv. þingmaður nefnir lausnir. Framsóknarflokkurinn er að sjálfsögðu andvígur verðtryggingu. Ég er sammála hv. þingmanni um að afnema eigi verðtryggingu. Við verðum að byrja á nýjum lánum. Síðan eigum við að setja upp hvetjandi kerfi fyrir þá sem eru með verðtryggð lán og skipta þeim yfir í óverðtryggð lán. Það mun verða farsælt. Áfram verður Ísland lítið opið hagkerfi sem getur lent í áföllum og þá er alveg óásættanlegt að það séu alltaf þeir sem eru með verðtryggð lán sem taka á sig ábyrgð.