144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er afar sáttur við það þegar menn, óvart eða viljandi, rifja upp hvernig staðan er á Íslandi, til dæmis varðandi jöfnuð, og hvernig við fórum út úr hruninu. Það er órækur vitnisburður um hvernig fyrrverandi ríkisstjórn með margbreytilegum hætti, þ.e. með blandaðri aðferð, náðum gríðarlegum árangri. Það er mjög fróðlegt að skoða það í öllum hagtölum og tölum sem komu um það hvernig við brugðumst við og hvaða árangri var náð. En það breytir ekki því að það vofir yfir okkur að þetta gerist aftur eftir fimm til tíu ár. Og þegar við erum að tala um hvað gerðist hér á Íslandi þá er það ekkert öðruvísi en það að þeir flokkar sem hér eru í ríkisstjórn í dag settu sér það markmið að Ísland yrði fjármálamiðstöð alheimsins og kepptu við Írland. Er þetta ekki rétt? (Gripið fram í.)

Við erum að tala um að á þeim tíma var bankakerfið íslenska með 14 þús. milljarða. Sem betur fer var það þannig að þessi upphæð féll, og hefði gert það þó að við hefðum verið í Evrópusambandinu, á viðkomandi banka fyrst og fremst. Við settum Bank of Scotland yfir á ríkisstjórnina í Bretlandi. Hann var ríkisvæddur í framhaldinu vegna þess að hann fór nánast á hausinn. Þýsku bankarnir lentu í verulegum vandræðum. Við skulum ekki vera að yfirdramatísera lausnirnar, þ.e. það að við sluppum vegna þess að við tókum margar skynsamlegar ákvarðanir á þeim tíma. En það er mikið af óleystum vandamálum. Við þurfum að ná upp kaupmættinum. Við þurfum að ná sátt í þessu samfélagi og það er það sem ég var að leggja áherslu á. Af hverju er þá ríkisstjórnin að tæta okkur í sundur í ósætti í staðinn fyrir að finna farveg til að leyfa þjóðinni að skera úr um hlutina? (FSigurj: ESB er engin lausn.) Það er vegna þess að þú ætlar að ákveða fyrir þjóðina, hv. þingmaður, að þetta sé ekki lausnin. Ef við ætlum að hafa sérlausnir og ekki að þora að spyrja þjóðina, þá er illa komið fyrir okkur.