144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Það sem er kannski áhugavert og kristallast dálítið vel í þessu máli er spurningin um það hversu vel búin við erum til að takast á við álitamál þar sem ólík sjónarmið eru uppi millum flokka og millum aðila innan flokka. Þetta mál virðist kljúfa suma flokka, t.d. vitum við að töluverður stuðningur hefur verið við það innan beggja stjórnarflokkanna og ég veit líka innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þó svo að meirihlutasjónarmiðin séu önnur.

Það sem mér finnst vera áhugavert við nálgun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og gerir að verkum að mér finnst dálítið gaman að fylgjast með umræðunni hér í dag er að margir þingmenn stjórnarflokkanna virðast ekki ná utan um það að hægt sé að fara út fyrir flokkinn, út fyrir hefðbundna stofnun og spyrja bara fólk hvað því finnist og hafa það sem afstöðu í máli þótt maður sé sjálfur efnislega á móti eða hafi einhverja skoðun varðandi niðurstöðuna. Mér finnst þetta áhugaverð nálgun á málið og ég held að við ættum að geta beitt henni í miklu fleiri málum. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái ekki fyrir sér að fleiri mál geti fengið sambærilega nálgun, þ.e. hvað varðar úrlausn og niðurstöðu, nálgun til að reyna að ná einhvers konar samstöðu um málin vegna þess að stundum eru málin of stór fyrir Alþingi Íslendinga. Þá á ég við að sum mál eru einfaldlega þannig að eðlilegra er að fara með þau út fyrir þetta hús og spyrja þjóðina ráða. Það hefur sýnt sig að þetta mál er svo sannarlega þannig. Ég velti því upp við hv. þingmann hvort þetta gæti ekki átt við um fleiri mál.