144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir spurningar hennar. Það er mjög áleitin spurning hversu vel eða illa við erum í stakk búin til að takast á um álitamál á Alþingi. Það sem hefur komið mér einna mest á óvart þennan vetur sem ég hef starfað hér er hversu mikill tími fer í að ræða málsmeðferð en hversu litlar umræður eru um inntak málanna, þ.e. hversu lítil pólitísk umræða á það til að verða í þingsal þar sem togast á ólík grundvallarsjónarmið og fram kemur hvaða hugsjónir, stefnu eða markmið þingmenn hafa að leiðarljósi í vinnu sinni. Þetta veldur mér satt að segja nokkrum vonbrigðum því ég hélt að ég væri hingað komin til að ræða pólitík en ekki málsmeðferð, en maður verður víst líka að læra það, greinilega.

Svo er spurningin um hvort fleiri mál ættu að fá sambærilega meðferð og við ættum að leita til þjóðarinnar með. Já, ég held að við ættum að gera það, sérstaklega ef upp koma mál sem greinilega eru mjög skiptar skoðanir um, jafnvel þvert á flokka og okkur gengur mjög illa hér inni að ná annaðhvort sáttum um(Forseti hringir.) eða „pólaríseringu“ þar sem skilur á milli í hvora áttina við viljum fara með flókin mál. Já, þá eigum við að leita til þjóðarinnar.