144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[19:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er greinilega sama sinnis og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og sammála því sem þeir lofuðu í síðustu kosningabaráttu, alla vega varðandi fyrsta liðinn. Þar segir Sjálfstæðisflokkurinn í kosningaloforðabæklingi sínum, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“

Þetta er alveg skýrt. Þetta er það sama og hv. þingmaður segir. Hv. þingmaður Vinstri grænna og þingflokkur Vinstri grænna telja hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan en vilja fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, vilja að þjóðin taki ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Við leggjum til með þessari þingsályktunartillögu að það verði gert 26. september á þessu ári.

Ef hv. þingmenn, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson, hugsa að það sé kannski svolítið snemmt og betra að bíða aðeins með þjóðaratkvæðagreiðslu þá leggur hann náttúrlega til í meðferð málsins í þinginu að fara í hana rétt fyrir kosningarnar: Gerum það rétt fyrir kosningarnar og uppfyllum þannig kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins um að þjóðin taki ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Svo eru Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þm. Vinstri grænna eflaust ekki sammála um hin atriðin, að ástæðan fyrir því að ganga ekki í Evrópusambandið hafi með það að gera að sambandið sé of hernaðarlega sinnað eða of hægri sinnað. En þau eru klárlega (Forseti hringir.) sammála um að það eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, hafa alla vega lofað því, og að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan sambandsins en innan.