144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[19:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Bara fyrst til að svara því þá má endurskoða margt í virðisaukaskattskerfinu og í mínum þingflokki hefur átt sér stað umræða um nákvæmlega það atriði sem hv. þingmaður nefnir hér. Ég hef ekki í þessari umræðu notað það sem röksemd gegn þessari tillögu að hún kosti 300 millj. kr. Ég held hins vegar að gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslum almennt sé mikilvægt að möguleikinn til þeirra sé fyrir hendi. Ég held að það sé jákvætt að þær séu notaðar í auknum mæli en ég er sennilega ekki jafn róttækur í þeim efnum og hv. þingmaður sem alveg örugglega vill nýta þjóðaratkvæðagreiðslur meira en ég. Ég tel að það sé form sem beri að nota í ákveðnum tilvikum þegar um stórmál er að ræða, en ég vil hins vegar fara varlega í það þannig að þetta sé tæki sem er notað þegar um raunveruleg stórmál er að ræða.

Varðandi það sem einstakir frambjóðendur hafa sagt hef ég þann fyrirvara á að kosningastefna Sjálfstæðisflokksins birtist í landsfundarályktun hans. Það sem þingmaður er trúlega að vitna til eru ummæli af heimasíðu flokksins. (JÞÓ: Í stefnuskrárplagginu sjálfu.) Stefnuskrárplagg kannast ég ekki við annað en landsfundarályktun en trúlega er verið að vísa í ummæli af heimasíðu sem líklega byggja á ummælum einstakra frambjóðenda og forustumanna flokksins fyrir kosningar og ég held að þeir hafi viðurkennt að þeir hafi gengið of langt miðað við það sem raunhæft var í þeim ummælum.