144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[19:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að grundvallarafstaða mín í þessu efni mótist af því að til þess að fara í viðræður að nýju þurfi að vera fyrir hendi pólitískur stuðningur og pólitískur vilji fyrir því að fylgja því ferli eftir. Ég hef áhyggjur af þeirri stöðu, svo að ég tali bara hreint út, sem gæti komið upp ef niðurstaða yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu um spurningu af þessu tagi sem enginn meiri hluti væri fyrir hér í þinginu til að fylgja eftir og enginn meiri hluti væri fyrir í ríkisstjórn til að fylgja eftir.

Ég held að það sé vandamál vegna þess að það að standa í viðræðum við Evrópusambandið um aðild er ekki, getum við sagt, einfalt handverk nema upp að ákveðnu marki. Það er ákveðið handverk sem er fólgið í því að bera saman löggjöf Íslands og Evrópusambandsins og athuga hvað í okkar löggjöf er í samræmi við það sem gerðar eru kröfur um innan Evrópusambandsins. En í mörgum efnum þarf að taka pólitískar ákvarðanir, í mörgum efnum þarf að taka pólitíska ábyrgð á ákvörðunum, og ég held að það geti skapast mjög erfið staða, bæði inn á við og eins gagnvart viðsemjandanum, ef þá pólitísku sannfæringu skortir sem er nauðsynleg til að fylgja fram slíkum viðræðum.