144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:13]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið og spurninguna. Nei, ég tel kjósendur VG ekki hafa verið hlunnfarna. Á sínum tíma þegar farið var í viðræður um stjórnarsamstarf lá fyrir að þetta væri eitt af því sem væri undir. Það var samþykkt í öllum stofnunum flokksins og eins og þingmaðurinn veit væntanlega var þar talað um að við gætum á öllum tímapunktum sagt okkur frá ferlinu teldum við það vera óhagstætt fyrir land og þjóð. Það var líka samþykkt af okkar hálfu að aldrei yrði gengið í sambandið öðruvísi en að undanfarinni þjóðaratkvæðagreiðslu, og það er mjög mikilvægt.

Eins og ég sagði líka í ræðu minni áðan þá tel ég að það hafi verið mistök að leita ekki til þjóðarinnar strax á sínum tíma þegar þetta var gert. En það þýðir ekkert að sýta það, það var ekki gert. Að mínu mati voru það mistök og ég hefði viljað fara aðra leið. En við lofuðum þjóðaratkvæðagreiðslu og við höfum alltaf haldið því fram og allar okkar stofnanir hafa gengið út frá því þegar þetta hefur verið rætt. Við höfum ekki breytt um skoðun síðan þá, flest okkar eru ekki á því að ganga í Evrópusambandið. En eins og ég tók líka fram virtist töluverður hluti þeirra sem kusu okkur eða sögðust ætla að kjósa okkur ekki setja það fyrir sig þrátt fyrir að vera jafnvel að hugsa um eða vilja gjarnan ganga í Evrópusambandið, þrátt fyrir að VG væri flokkur sem hefði þá stefnu að gera það ekki. Það er því líka eins og ég sagði að fólk finnur sér stað þar sem það á mesta samleið, þannig að þetta virtist ekki skipta höfuðmáli.

Varðandi aðlögunina að kerfinu, ég gerði mér grein fyrir því að það þyrfti auðvitað (Forseti hringir.) ákveðið aðlögunarferli þegar sótt var um …(Forseti hringir.)