144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á mjög erfitt með að átta mig á því að hægt sé að líta svo á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hlunnfarið kjósendur sína með því að fylgja stefnu flokksins sem var samþykkt á landsfundi, en væntanlega byggist þessi skoðun hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur á því að einstakir oddvitar hafa talað einhvern veginn öðruvísi. (Gripið fram í: Kosningastefnuskráin …) Mér finnst í raun og veru langt frá því að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi verið hlunnfarnir vegna þess að stefnan var skýr, nýsamþykkt á landsfundi. Mér finnst það miklu meira að hlunnfara kjósendur þegar VG hefur skýra stefnu og fer síðan gegn henni á sínum tíma. Mér finnst það nær því að hægt sé að segja að einhver sé hlunnfarinn.

Varðandi önnur atriði sem ég vildi einnig koma að þá er gjarnan talað um að hér sé um að ræða samningaviðræður og það sé lýðræðislegt að sjá hvað út úr þeim kemur og kjósa síðan. Ég hef andmælt því lengi og ég held að það sé öllum ljóst að það eru auðvitað engar varanlegar undanþágur um grunnatriði í Evrópusambandinu. Það er aldrei gefið eftir, það hefur hvergi verið gefið eftir í öllum þeim aðildarviðræðum sem sambandið hefur átt við hin og þessi lönd. Ég vil vita af hverju menn telja að það muni gerast með Ísland, að við fáum varanlegar undanþágur sem hvergi hafa sést frá grunnatriðum. Það kann að vera að einhvers staðar sé hægt að benda á einhverja sumarhúsabyggð í Danmörku eða eitthvað slíkt, sem ég efast um að sé varanleg undanþága, en að menn trúi því enn að hægt sé að fá varanlega undanþágu í yfirstjórn sjávarútvegsmála, (Forseti hringir.) að við fáum að halda því áfram, það er auðvitað alveg galið.