144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig alltaf þegar fólk kemst nær þeirri niðurstöðu að fjölga eigi þjóðaratkvæðagreiðslum hérna almennt. Fyrr eða síðar verða aftur kosningar og þeim sem hér stendur þykir afskaplega mikilvægt að málskotsréttur þjóðarinnar verði í forgrunni þegar kemur að þeim kosningum. Það hefur verið gagnrýnt hér að þingmenn ákveði hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað ekki. Þá er allt af spurt hvert mat okkar hv. þingmanna sé á málinu en ekki mat hæstv. þjóðarinnar.

Mér finnst oft misskilningur stjórnmálamanna gagnvart beinu lýðræði — eða ekkert endilega hvaða útfærslu sem er á beinu lýðræði heldur þjóðaratkvæðagreiðslum í grundvallaratriðum — liggja í þeirri tilætlan stjórnmálamanna að þjóðin sé sammála þeim, þ.e. þeir eru hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslum þegar þjóðin er sammála þeim en eru á móti þjóðaratkvæðagreiðslum þegar þeir telja þjóðina ósammála sér. Í þessu tilfelli er það svolítið skrýtið vegna þess að þjóðin er, alla vega benda skoðanakannanir benda til þess, á móti inngöngu í Evrópusambandið eins og er. Þess vegna hef ég aldrei alveg skilið nákvæmlega hvers vegna meiri hlutinn lætur ekki bara vaða á þetta og drepur þetta.

Það er spurning sem mig langar að koma til hv. þingmanns. Hér á sér stað vitundarvakning hjá mörgum þingmönnum stjórnarandstöðunnar, sem voru í meiri hluta á síðast þingi, gagnvart því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur: Mundi hv. þingmaður styðja kerfi þess eðlis að þjóðin sjálf ákvæði hvað af þingmálum færi í þjóðaratkvæðagreiðslu, án tillits til þess hvað okkur finnst á hinu háa Alþingi?