144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:26]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég rakti í ræðu minni áðan þann heigulshátt sem ríkir og er fólginn því að þora ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu nema menn séu sannfærðir um að niðurstaðan verði að þeirra skapi. Þetta er auðvitað eitthvað sem við eigum ekki að vera hrædd við, við eigum ekki að vera hrædd við lýðræðið. Við erum kosin hingað inn lýðræðislega og sjónarmið okkar verða ekki alltaf ofan á. Ég sagði líka: Stundum verður maður að lúta meiri hlutanum í sínum þingflokki eða gagnvart þjóðinni, því að hún sé ekki endilega öll sammála manni. Ég vil ekki endilega tala um núna sé að verða vitundarvakning, ég vil fara varlega í að segja að nú eigi sér stað vitundarvakning hjá fyrrverandi stjórnarflokkum vegna þess að við vinstri græn höfum mikið talað fyrir því að auka lýðræðisþátttökuna, auka þátttöku þjóðarinnar. Eins og fram kom í ræðu formanns Vinstri grænna þegar hún mælti fyrir þessu máli í dag lögðum við til þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúka, sem var stórt og afar umdeilt pólitískt mál. Sóknaráætlun landshluta fór fram með þjóðfundarfyrirkomulagi, lýðræðislegri þátttöku þjóðarinnar. Það hefði betur verið eins með NATO o.s.frv. Ég held alla vega að við í Vinstri grænum höfum lagt mikla áherslu á aðkomu þjóðarinnar, m.a. í stjórnarskrárvinnunni og öðru því um líku.

Ég verð að vera hreinskilin með það að ég hef reyndar ekki velt því fyrir mér, af því að við erum jú lýðræðislega kjörin á þing þó að við séum ekki alltaf klárust og dómbærust á alla hluti, hvort ég sé endilega sammála því að öll þingmál verði opin þannig að þjóðin geti alltaf ákveðið hvaða mál hún vilji fá í atkvæðagreiðslu. Mér hugnast hins vegar miklu meiri þátttaka þjóðarinnar í mörgum málum og er til í að velta því upp og eins varðandi hlutfallið, (Forseti hringir.) hvert það á að vera og slíkt, að hafa það lægra.