144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér eitt af þeim stóru málum sem stundum hafa klofið þjóðina og fjölskyldur í umræðum um hvort hag okkar sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Nú erum við komin á þann stað að hér liggur fyrir þingsályktunartillaga um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla 26. september 2015 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Að þeirri þingsályktunartillögu standa formenn stjórnarandstöðunnar og miðað við alla forsögu þessa máls og ef horft er til framtíðar lít ég þannig á að það sé mjög skynsamlegt að menn sameinist um þessa tillögu og tel hana höggva á ákveðinn hnút sem verið hefur í þessu máli.

Við þekkjum auðvitað öll forsöguna, að árið 2009 samþykkti þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna þingsályktunartillögu um að hefja aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Ég get alveg viðurkennt það hér sem andstæðingur þess að við göngum í Evrópusambandið að það var þungt fyrir mig og fleiri að það skyldi verða niðurstaðan, en sú varð raunin. Ég greiddi ekki atkvæði með því að við sæktum um aðild að Evrópusambandinu á þeim tíma en ég er lýðræðislega sinnuð og laut þeirri niðurstöðu meiri hluta þingsins og það voru ekki eingöngu fulltrúar stjórnarflokkanna sem greiddu atkvæði með þeirri tillögu.

Ég vil vekja athygli á því og tel fulla ástæðu til að vekja athygli á því þar sem það hefur komið fram í umræðunni að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu sumarið 2009 um að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort þjóðin vildi sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég greiddi atkvæði með þeirri tillögu. Mér finnst gott að sjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur ganga hér í salinn vegna þess að ég er einmitt núna að minna þingheim á að ég var ein af þeim sem greiddu atkvæði með tillögu sjálfstæðismanna sumarið 2009 um að við bærum það undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við vildum sækja um. Ég vil bara halda því til haga því ég er þannig þenkjandi að ég tel að þetta mál muni ekki hverfa frá okkur fyrr en við leysum það með þeim hætti að það sé þjóðin sem á síðasta orðið og ég held að það sé ekki hollt fyrir okkur sem erum með miklar efasemdir um að hagsmunum okkar sé betur borgið innan Evrópusambandsins að halda þessu máli í eins konar gíslingu frá þjóðinni. Ég hef fundið fyrir því að eftir því sem menn herða frekar róðurinn í þeim efnum að reyna að pakka þessu máli niður úr því sem komið er, þá vekur það þá þanka hjá almenningi í landinu að hann vill fá að sjá hvað er í boði og vill eiga aðkomu að ákvarðanatöku um hvort halda eigi áfram viðræðum og verði niðurstaðan að sjá þá hvað kemur út úr þeim niðurstöðum og greiða atkvæði um slíkt. Árið 2009, þegar hrunið hafði dunið yfir fannst mér ekki að það væri það brýnasta sem við þyrftum að gera að sækja um aðild að Evrópusambandinu. En auðvitað eru skiptar skoðanir um það og ég gekkst undir þann lýðræðislega vilja og flokkur minn samþykkti það á öllum stigum í flokksstofnunum sínum að ganga til samstarfs við Samfylkinguna á þessum forsendum með það að leiðarljósi að það væri þjóðin sem mundi eiga síðasta orðið í þessu stóra máli.

Ég veit vel að það eru kostir og gallar við að vera innan Evrópusambandsins. Það er ekkert alvont í því ríkjabandalagi. Margir góðir hlutir hafa komist á legg hjá okkur sem öðrum þjóðum vegna þess að það samstarf var fyrir hendi, ég get nefnt þar varðandi umhverfismálin, vitundarvakningu í þeim efnum og margt annað í þeim málaflokki sem væri örugglega ekki komið jafn langt og í dag nema þessar þjóðir hefðu unnið á þeim vettvangi. Ég get nefnt ýmsa þætti sem snúa að vinnulöggjöf og vinnumarkaðsmálum sem þrýst hafa á þjóðir að auka réttindi launafólks. En ég er líka mjög gagnrýnin á ýmislegt í Evrópusambandinu og er andsnúin öllu hernaðarbröltinu sem heldur áfram að viðgangast innan sambandsins og því að það sé orðið ígildi hernaðarbandalags og að valdastofnanir þess séu í raun mjög hægri sinnaðar. Þær hafa ekki tekið á erfiðleikum margra fátækra þjóða í kjölfar hrunsins og það hefur sýnt sig að Evrópusambandið er í raun og veru kapítalískt. Mér hefur þótt halla á lýðræðisvinkilinn í því sambandi, mér hefur þótt halla á jafnrétti kynjanna. Við sjáum oftar en ekki myndir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þar sem eru jakkaföt út í eitt og svo kannski ein eða tvær konur í jakkafötum líka svo maður gerir oft ekki greinarmun á því. Það er ýmislegt í þeim dúr sem mér finnst ekki hægt að hrópa húrra fyrir.

Ég hef líka verið gagnrýnin á það að framselja vald okkar, lítillar þjóðar, til þessa yfirþjóðlega valds og ég held að verði mjög erfitt að halda lýðræðisvakningu við meðal þjóðarinnar þegar ákvarðanatökur í mörgum stórum málum verða komnar svo langt frá okkur. Og við sem búum úti á landsbyggðinni sem finnst oft að Reykjavíkurvaldið og höfuðborgarvaldið gleypi margt sem mætti vera í nærsamfélaginu hugsum mörg hver til þess með hryllingi ef valdið færist enn lengra frá okkur og undir yfirstjórn ESB. En allt það verður auðvitað rætt, kostir og gallar aðildar að ESB á réttum tímapunkti. Þess vegna þarf málið að fara í þann feril þar sem þjóðin sjálf getur tekið upplýsta umræðu um framhaldið. Þess vegna lít ég á þá tillögu sem hér liggur fyrir, að þjóðin fái að greiða atkvæði um áframhaldandi viðræður við ESB, í raun og veru sem mjög góða tillögu fyrir okkur sem erum búin að gera upp hug okkar og erum andvíg inngöngu í ESB vegna þess að það er svo lýðræðisleg nálgun. Þá er líka möguleiki á að ljúka málinu, á hvorn veginn sem það fer. Ég held að það séu meiri líkur á því að málinu ljúki á þann veg að þjóðin kjósi að vera utan Evrópusambandsins ef við förum í þessa vegferð strax og drögum það ekki.