144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi virkilega að skoða hvað er strategískt í þessu máli. Eins og hv. þingmaður nefnir þá er annar flokkur í burðarliðnum sem gæti kostað Sjálfstæðisflokkinn einhver prósent í fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist núna með um 25%. Hann hefur verið með á kjörtímabilinu milli 25 og 30%, eitthvað slíkt. Það er náttúrlega langt frá því sem flokkurinn hefur verið með í sögulegu samhengi sem er í kringum 40% fylgi.

Styrmir Gunnarsson skrifaði grein sem bar titilinn „Hvernig á að skilja Pírata?“ rétt fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar þar sem hann kallaði eftir því að flokkurinn færi að átta sig á því að hann yrði að taka upp stefnumál sem skipta unga fólkið máli og fólk almennt sem tekur þátt í þessari nýju byltingu sem er upplýsingatæknibyltingin í dag. Sjálfstæðisflokkurinn þarf virkilega að skoða á flokksþingi sínu í haust hvort það sé ekki sniðugt að fara þá leið sem oddvitar flokksins lofuðu í síðustu kosningum að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, klára þetta mál(Forseti hringir.) ... fá þjóðina til að segja nei, klára þetta mál, (Forseti hringir.) geta haft það út af borðinu í tíu, fimmtán ár.