144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað var þetta eldheitt mál á sínum tíma. Sem betur fer var ég ekki þvinguð til að greiða atkvæði á móti þessu, það var þá mín réttlætiskennd og sannfæring sem þvingaði mig til þess. Ég gerði þetta af fúsum og frjálsum vilja en eðlilega, í svona stóru máli, ræddu menn þetta á víxl. Atkvæði féllu með ýmsum hætti og stjórnarandstæðingar greiddu líka atkvæði með þessu. Þetta var bara, eins og ég sagði, niðurstaða þingsins sem ég sem lýðræðissinni gekkst undir. Ég mat þáverandi stjórnarsamstarf mjög mikils og þannig er það bara með stjórnmálamenn að þeir þurfa að taka ákvörðun á ýmsum stigum. Ef þeir geta það ekki og eru alltaf í baksýnisspeglinum tel ég þá ekki vera alvörustjórnmálamenn. Það þarf stundum að taka súrt með sætu. Þannig er það bara í lífinu og pólitíkinni líka.

Aðferðafræðin og það sem hv. þingmaður nefndi — ég er mjög stolt af því að minn flokkur hefur tekið þá afstöðu í þessu máli að láta lýðræðið ráða för. Menn hafa oft talað um þennan ómöguleika og hvernig við getum borið fram samninga sem við sjálf mælum ekki með. En hvað gerist til dæmis í kjarasamningum? Menn ná þar niðurstöðu og formenn verkalýðsfélaga eru ekki endilega 100% sáttir. Er það ekki þeirra hlutverk að leggja samningana fyrir sína félagsmenn og láta þá hafa síðasta orðið? Með sama hætti tel ég að við stjórnmálamenn eigum að leggja þetta stóra mál fyrir þjóðina og láta hana hafa síðasta orðið.