144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ómöguleiki sé ekki til í þessu máli og undir lá þingsályktunartillaga með markmiðum sem varð að uppfylla til að þetta mundi ganga áfram. Við þekkjum það. Hv. þingmaður þekkir það líka sem lögmaður að lögmenn verja einstaklinga hvort sem þeir reynast síðan sekir eða saklausir. Það er ómöguleikinn í starfi lögmanna hér á landi. (BN: Það er alltaf erfitt.) Það er margt erfitt í lífinu sem menn þurfa samt að takast á við, hv. þingmaður.

Varðandi VG og hvort erfitt sé að standa frammi fyrir því að farið hafi verið út í þessar aðildarviðræður, segi ég: Ég og fleiri félagar mínir gengum í gegnum þann þroska í lýðræðisátt að stíga skrefin með fólkinu okkar. (Forseti hringir.) Þegar flokksþing og flokksstjórn VG samþykkti að fara í ríkisstjórn á þessum forsendum þá var öll leiðin (Forseti hringir.) vörðuð samþykktum okkar flokksstofnana.