144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Þá langar mig að víkja að því sem kemur fram í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar. Þar kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. En jafnframt segir: „Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“ Þetta er líka hið sama og oddvitar flokksins, margir hverjir, sögðu fyrir kosningarnar. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort það sé sannfæring hans að uppfylla eigi þau kosningaloforð og standa við þau kosningaloforð sem eru gefin.

Jafnframt langar mig að benda þingmanninum á að það að líta á matseðilinn o.s.frv. er ágætismyndlíking en hún nær bara svo langt. Samningaferli, eins og hv. þingmaður sjálfsagt veit, gengur út á það að þú ert að athuga hvort samningar nást, þú ferð í samningaferli til að athuga hvort samningar nást. Hvað þýddi þetta samningaferli? Þetta samningaferli þýddi líka aðlögunarferli. Þetta var ekki bara umsóknarferli. Í umsóknarferlinu, samningaferlinu, var aðlögunarferli og ekki bara aðlögun að EES-löggjöfinni heldur líka að ESB-löggjöfinni. Þess vegna hefði átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en menn fóru af stað í þetta ferli. Þetta var stórt og dýrt ferli sem þýddi að verið væri að aðlaga íslenska löggjöf að löggjöf ESB. Það er það sem verið er að kalla eftir hér og þjóðin kallar eftir því að fá að kjósa um áframhaldandi aðildarviðræður, þjóðin kallar eftir því. Þjóðin segist líka ekki vilja fara í Evrópusambandið. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi virkilega að hugsa hvort ekki sé skynsamlegra, í ljósi þess að hann getur verið að missa fylgi, ef nýr flokkur í burðarliðnum kemst á koppinn. Ég veit ekki hvað það getur kostað en það getur kostað Sjálfstæðisflokkinn töluvert að (Forseti hringir.) uppfylla ekki þetta kosningaloforð og láta þetta verða stórt mál (Forseti hringir.) í næstu kosningum. Þeir eiga að klára þetta mál, fara með það fyrir þjóðina, vera með þjóðaratkvæðagreiðslu, (Forseti hringir.)klára samningana, klára þjóðaratkvæðagreiðslu og segja: Nei.