144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:41]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit satt best að segja ekki alveg hvernig ég á að svara andsvari hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar. (JÞÓ: Þetta var meira svona meðsvar.) Já, það mætti eiginlega orða það eins og hv. þingmaður segir sjálfur, þetta var kannski frekar meðsvar.

Ég greindi frá því áðan að ég hefði haft þessa skoðun og að hún hefði alla tíð verið mönnum kunn í mínum flokki. Flokksmönnum mínum, jafnt þeim sem eru andsnúnir aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem og þeim sem deila skoðun minni, hefur verið það ljóst lengi. Ég hef engu að síður fengið brautargengi innan flokks míns til þess að vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Alþingi Íslendinga. Ég mun halda áfram að tala í þá veru sem ég hef alltaf gert. Þegar upp er staðið verða þeir kannski fleiri sem eru mér sammála um aðferðafræðina. Ekki ætla ég að gera því skóna að einhver ætli að hafa hlutina öðruvísi bara til þess að vera á móti.

Virðulegur forseti. Á nákvæmlega sama hátt og ég tel mig hafa verið samkvæma orðum mínum í þessu máli alla tíð verða þeir sem andvígir eru aðildarviðræðum líka að vera samkvæmir sjálfum sér. Ég deili ekki skoðun þeirra, ég virði hana, en ég ætlast til þess sama, að mín skoðun sé líka virt. Hún hefur alltaf legið fyrir. En vissulega óska ég þess að við berum gæfu til að leiða þetta mál til lykta með aðkomu þjóðarinnar vegna þess að þjóðin er í þessu tilviki sá aðili sem skiptir meginmáli.