144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að vona að það verði áfram styrkur Sjálfstæðisflokksins að þar rúmist ólíkar skoðanir í einstökum málum. Það er það, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi, sem hefur gert þann flokk að breiðfylkingu fram til þessa. Það er mín ósk og von að Sjálfstæðisflokkurinn haldi þeirri breidd og að innan hans muni ríkja rými fyrir ólíkar skoðanir í þessu máli sem og mörgum öðrum.

Það er hins vegar ljóst að umbylting samfélagsgerðarinnar, og við getum farið aftur að hruni, hefur líka gert það að verkum að fólk metur og horfir til stjórnmálanna á margan annan hátt en það gerði áður. Það er ekki jafn bundið sínum flokki og það var fyrir 10, 15, 20 árum, ég tala nú ekki um lengri tíma. Fólk velur einstaka flokka, jafnvel einstaklinga, til þess að fylgja eftir málum sínum. Það hefur sýnt sig í mörgum skoðanakönnunum frá hruni að fólk ætlast til þess að stjórnmálamenn, sem og aðrir framámenn í samfélaginu, standi við orð sín og séu heiðarlegir og trúverðugir. Ég held að það sé leiðarljós sem allir stjórnmálaflokkar þurfa að íhuga innan stofnana sinna. Það eru þau gildi að heiðarleiki og trúmennska skipti máli og með þeim hætti öðlastu fylgi og aðrir hafa trú á þér. Allt annað er fyrir bí ef þetta er ekki fyrir hendi.