144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því er mjög einföld. Hún er sú að ef þetta mál á ekki heima í þjóðaratkvæðagreiðslu þá veit ég ekki um nokkurt mál sem ætti heima í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef undanskilin er staðfesting á stjórnarskrá eða eitthvað því um líkt, en ferlið er nota bene ekki þannig að stjórnarskrárbreytingar séu staðfestar með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef við leyfum því að viðgangast í fyrsta lagi að ríkisstjórnin slíti viðræðum þvert á loforð og sniðgangi augljóslega þingið erum við komin í miklu verri klemmu en þá að sjá ekki beint lýðræði í bráð, sem er fyrir mér nógu slæmt. Það er slæmt að við missum af þeim góðu tækifærum sem við höfum til þess að koma á tiltölulega reglulegum þjóðaratkvæðagreiðslum hérna.

Ég velti fyrir mér: Hvað ef menn vildu þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið um áfengismálið, sem er mjög umdeilt mál sem margir hafa skoðun á? Það er tiltölulega auðvelt að kynna sér það þannig séð. Menn hafa viðrað þá skoðun að það sé mál sem eigi kannski heima í þjóðaratkvæðagreiðslu. Persónulega finnst mér að það ákall þurfi að koma frá þjóðinni en ekki frá stjórnmálamönnum. En ætla menn að setja það mál í þjóðaratkvæðagreiðslu ef þeir vilja ekki bera þetta mál undir þjóðina? Ef þeir vilja setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvers vegna þá ekki þetta líka? Ef menn vilja setja einhvers konar virkjanir í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvers vegna ekki þetta mál líka? Eða flugvöllinn í Reykjavík, segjum það, hvers vegna þá ekki þetta? Það er alveg sama hvaða mál ég lít á, ef þetta mál á ekki heima í þjóðaratkvæðagreiðslu get ég ekki skilið skilaboðin öðruvísi en þannig að engin mál eigi heima í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Svo er það nú þannig með okkur blessuðu stjórnmálamennina — ja, blessaða eða ekki — að við erum alltaf rosalega til í að tala um þjóðaratkvæðagreiðslur og segjum: Já, já, við værum alveg til í fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur, bara ekki í þessu máli. Svo kemur næsta mál. Jú, jú, ég er alveg í sjálfu sér hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum, bara ekki í þessu máli. Það á aldrei við í „þessu máli“. Það er einhvern veginn lenskan hjá okkur stjórnmálamönnum og því þurfum við að breyta. Við þurfum að breyta því með því að hætta að hugsa þannig að við séum bara hlynnt þjóðaratkvæðagreiðslum þegar þjóðin er sammála okkur. Við verðum að átta okkur á því að þegar þjóðin á að ákveða eitthvað (Forseti hringir.) þá á það ekki við um okkur. Kannski er það svolítið brjáluð hugmynd fyrir stjórnmálamenn en ég lít svo á að það sé góð hugmynd samt sem áður.