144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir góða ræðu og einstaklega gott yfirlit. Ég veit að það var ekki tæmandi en við fengum hér efnislega yfirferð yfir ýmsar undanþágur sem veittar hafa verið ríkjum innan Evrópusambandsins.

Hér hefur verið talað um, í andsvörum, að engin ástæða sé til að sækja um aðild að Evrópusambandinu, það liggi fyrir að við munum ekki fá neinar undanþágur, eins og það er kallað. Nú vill svo til að Evrópusambandið er friðarbandalag með göfugar hugsjónir en jafnframt hagsmunabandalag. Þar eru ríkir hagsmunir og þar hefur verið búin til umgjörð til að takast á um hagsmuni og finna leiðir þar sem fólk fórnar minni hagsmunum fyrir meiri. Ég vil varpa þeirri spurningu til hv. þingmanns, í ljósi þekkingar hans á aðildarviðæðum annarra ríkja, hvort hann telji líklegt að þær hrakspár sem hér hafa verið bornar fram, um að Ísland geti ekki með neinu móti náð hagfelldum samningum varðandi sjávarútveg, sem er ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, nái fram að ganga; hvort hann telji líklegt að í því sambandi verðum við meðhöndluð eins og hvert annað fiskveiðiríki innan Evrópusambandsins.