144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt mótsagnakennt í nálguninni í þessu máli. Tökum þetta með viðræður og samning. Þegar lagt var af stað í viðræðurnar — auðvitað voru misjafnar tilfinningar gagnvart því, mætti nú margt um það segja — voru samtök eins og LÍÚ til dæmis alveg andvíg því að Ísland gengi í Evrópusambandið. En þar á bæ, leyfist mér vonandi að vitna í, tóku menn þá ábyrgu afstöðu að segja: Úr því að við erum farin í viðræður þá er skylda okkar að landa eins góðum samningi og hægt er. Af hverju? Jú, vegna þess að við verðum alveg eins að gera ráð fyrir þeim möguleika að hann verði samþykktur og þá er eins gott að hann sé eins góður og mögulegt er. Það er ábyrg afstaða, þannig að hvað sem tilfinningum manns líður held ég að niðurstaðan hljóti að verða sú að ef við ræðum við Evrópusambandið er markmiðið að landa eins góðum samningi og mögulegt er. Um það eiga allir að geta sameinast, hverjar sem tilfinningar þeirra eru að öðru leyti.

Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að ég tel að það væri óskaplega gott fyrir þjóðarsálina og umræðuna, þjóðmálaumræðuna, ef við gætum skýrt stöðuna í þessum efnum þannig að við þyrftum ekki að þrasa um sömu hlutina, t.d. þó ekki væri nema næstu tíu, fimmtán árin, fengjum það bara á hreint: Eru einhverjar sérlausnir í boði? Er þetta ásættanlegt? Vill þjóðin þetta eða vill hún það ekki? Auðvitað verður aldrei hægt að ákveða þetta af einni kynslóð, núlifandi kynslóð, um aldur og ævi. Og við eigum ekki að ætla okkur þá dul, sem nú erum í stjórnmálunum, og sum okkar farin að reskjast í þeim skilningi, búin að vera þó nokkuð lengi, að við ætlum að reyna að ákveða þetta fyrir hönd komandi kynslóða. Ég sætti mig fullkomlega við það og vil að það sé þannig að það sé í höndum kynslóða framtíðarinnar að fara með þetta mál. Mér finnast sumir jafnaldrar mínir, og jafnvel menn býsna miklu eldri, enn ganga með þær hugmyndir í kollinum að þeir eigi að ráða þessu fyrir hönd allrar framtíðar. Þannig verður það ekki. En það væri kostur fyrir landið að skýra stöðuna, (Forseti hringir.) t.d. næstu tíu, fimmtán ár fram í tímann, eins og gerðist í Noregi eftir að þeir höfnuðu aðildarsamningum í hið seinna sinni.