144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég velti fyrir mér í tilefni af ræðu hans og í ljósi þeirrar reynslu sem hann hafði við ríkisstjórnarborðið á síðasta kjörtímabili hvort hann telur, væru viðræður hafnar að nýju, að við þær aðstæður væri líklegt að við fengjum fljótlega að sjá á einhver spil í þeim málaflokkum sem við höfum mest rætt hér, sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum. Það sem gerðist á síðasta kjörtímabili var að það urðu miklar tafir á því að viðræður hæfust um þá kafla, ekki síst sjávarútvegsmálin. Sumir hafa nefnt að þar hafi mestu ráðið makríldeilan, hvað sjávarútvegsmálin varðar, þó að aðrir þættir kunni að hafa skipt máli.

Ég veit að á síðasta kjörtímabili var það honum og mörgum í hans flokki mikið kappsmál að fá línurnar nokkuð á hreint akkúrat í þeim málaflokkum og tel víst að hv. þingmaður hafi lagt sitt af mörkum til þess að svo yrði. Telur hv. þingmaður, ef ferlið hæfist að nýju, að við mundum lenda í áframhaldandi stoppi á þeim málefnasviðum þó að viðræður gætu hugsanlega gengið áfram á öðrum málasviðum þar sem vandamálin eru færri eða viðfangsefnin færri?