144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði ástæðu til að ætla að við ættum ekki að eiga í erfiðleikum til dæmis með að fá opnaða og fara í alvöruviðræður um landbúnaðarkaflann og hollustu- og heilbrigðiskaflann. Þar var að vísu farið fram á umtalsverðar sérlausnir af okkar hálfu en þær voru skýrar og afmarkaðar og ég held að Evrópusambandið hafi verið alveg tilbúið til þess að taka afstöðu til þeirra í viðræðunum. Það var mín tilfinning, enda var það býsna langt komið að þeir færu að opnast upp.

Varðandi sjávarútveginn er það mín skoðun, það er mín sannfæring að þar hafi makríldeilan og harkan í makríldeilunni leikið lykilhlutverk í því að rýniskýrsla Evrópusambandsins sat áfram læst ofan í skúffu og ég veit alveg nákvæmlega á hvaða stigi hún var þar. Satt best að segja hef ég séð hana og veit hvað í henni stóð og veit að þar voru tveir hornklofar utan um tvö mismunandi opnunarskilyrði, það er bara þannig. Og það voru deilur innan Evrópusambandsins um hvorn hornklofann ætti að nota, hversu harkalega ætti að fara í okkur út af makríl, hvort það ætti að nefna hann beint eða nefna hann undir rós. Þannig var það mál.

Nú hefur það að vísu gerst í makríldeilunni að við höfum í aðalatriðum náð saman við Evrópusambandið, þannig að deilan er ekki lengur milli okkar og ESB heldur á milli okkar og Noregs. Það er óopinbert leyndarmál, er það ekki? Það er Noregur sem stoppar það að við komumst inn í makrílsamningana með alveg ásættanlega prósentu eða að minnsta kosti langleiðina það. Evrópusambandið var þrátt fyrir allt tilbúið til að sýna þann sveigjanleika að við fengjum tveggja stafa tölu og seinni stafurinn er ekki núll og ekki einn. En Noregur gat með engu móti sætt sig við það. Andrúmsloftið milli okkar og ESB yrði því kannski að því leyti skárra varðandi sjávarútveginn að þeir hafa auðvitað horfst í augu við að Ísland verður að fá einhverja sæmilega réttláta hlutdeild í makrílstofninum, þannig að það er ekki víst að hann yrði alveg sami ásteytingarsteinninn.

Ég velti alveg eins fyrir mér hvort ekki hafi súrnað svolítið í þessu öllu saman og ég er ekkert viss um að Íslendingum yrði (Forseti hringir.) tekið fagnandi í ljósi forsögunnar ef þeir allt í einu sneru við blaðinu, ef það gerðist á einhverjum næstu missirum (Forseti hringir.) gegnum þjóðaratkvæði, eða hvernig sem það nú yrði, eða nýja ríkisstjórn (Forseti hringir.) að menn vildu byrja aftur.