144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því að í ræðu fyrr í dag mátti að minnsta kosti skilja það á hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að hann teldi að það hefði verið samningatækni að bíða með erfiðustu kaflana. Var það upplifum hv. þm. Steingríms Sigfússonar að það væri með einhverjum hætti ákvarðandi þáttur í því að þessi tvö svið biðu, landbúnaðarsviðið og sjávarútvegssviðið, að þarna væri á einhvern hátt samningatækni, sem vissulega er ekki með öllu óþekkt, að menn reyni að ná saman um þá hluti sem auðvelt er að klára og geymi það sem er kannski erfiðast, hugsanlega til þess að skapa meiri pressu á það að lausn fyndist á þeim sviðum? Ég hjó eftir þessari kenningu hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og velti fyrir mér hvort upplifun hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hefði á einhvern hátt verið á þann veg.