144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svo sem tekið það gott og gilt. Það sem gerist í kjölfarið er að menn fara að tala um að þetta séu aðlögunarviðræður. Þegar ég hef spurt nákvæmlega hvað menn eigi við þá verður yfirleitt mjög lítið um svör. Seinast þegar ég spurði út í þetta fóru menn að tala um IPA-styrkina sem Evrópusambandið hætti að veita Íslandi og hæstv. utanríkisráðherra var reyndar mjög óánægður með, kvartaði sáran undan því í desember 2013, þótti þetta mikil svik af hálfu Evrópusambandsins þrátt fyrir að IPA-styrkirnir áttu víst að vera hluti af einhvers konar aðlögunarferli sem mönnum er svo illa við. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg alla þá orðræðu.

Það er við því að búast þegar kemur að ofboðslega stórum hagsmunamálum eins og Evrópusambandinu, sérstaklega gagnvart sjávarútvegi og landbúnaði o.s.frv., að raddirnar sem vilja stöðva ferlið verði mjög háværar. Þess vegna ítreka ég það að mér finnst mikilvægt að við áttum okkur á því öll hvernig við hefðum átt að greiða atkvæði á sínum tíma gagnvart þessari tillögu, sérstaklega þegar við lítum til framtíðar, hvernig við ætlum að eiga við sambærilega stór mál í framtíðinni.