144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:58]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mig langar aðeins að velta því upp í ljósi þess sem fram kom hjá þingmanninum hvað það er helst sem honum og Bjartri framtíð hugnast ef við fengjum inngöngu í Evrópusambandið. Hvað er það sem hann telur hagkvæmast fyrir land og þjóð og hverju mundi hann hafa kannski mestar áhyggjur af? Ég held að það sé óumdeilt að sambandið er að þróast í átt til meiri samruna, miðstýring er að verða meiri og því hefur verið haldið fram að fullveldi aðildarríkjanna sé að minnka og löggjöf Evrópusambandsins sé æðri löggjöf sumra eða einstakra ríkja. Það er kannski það sem við sem höfum haft efasemdir um inngöngu í ESB höfum haft áhyggjur af, að með því að ganga í ESB værum við að missa of mikið frá okkur miðað við það sem við bærum kannski úr býtum. Eins og hér hefur komið fram þá vitum við auðvitað ekkert fyrr en við fáum það í hendurnar.

Mig langaði að vita hvað það væri sem hv. þingmaður sem aðildarsinni sér sem helstu kosti þess fyrir íslenska þjóð að ganga í Evrópusambandið. Ég tel að við séum öll meðvituð um, bæði við sem erum síður hlynnt því og hinir sem eru mjög hlynntir því, að hér er um að ræða ríka hagsmuni fyrir þjóðina. Þess vegna erum við að tala hér saman. Öll sjónarmið eiga rétt á sér og nauðsynlegt að draga þau fram. En það væri áhugavert að heyra hvað þingmanninum finnst um þetta.