144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:04]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfi mér að vera frekar bjartsýnn og taka undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa talað í dag um að líkurnar á því að Ísland nái ásættanlegum samningi og ásættanlegri niðurstöðu í landbúnaðarmálum, fiskveiðimálum o.s.frv., geti verið fullkomlega viðunandi. Auðvitað töpum við alltaf einhverju fullveldi í hvert skipti sem við göngum til samstarfs. Ísland gefur eftir ákveðið fullveldi með því að vera þátttakandi í mannréttindasáttmála Evrópu. Við gerum það með glöðu geði vegna þess að þar tökum við þátt í styrk stærðarinnar til þess að berjast fyrir góðum málum.

Vandamálið við EES er í raun og veru það framsal fullveldis að við erum ekki við borðið, við tökum ekki þátt í umræðunni og Evrópusambandið (Forseti hringir.) er þannig uppbyggt að þar hafa menn ákveðið neitunarvald.