144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns að ekkert ríki hefði haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja aðildarviðræður. Því langar mig að fá að heyra aðeins meira um ríki sem hefur í tvígang hafnað því að ganga inn í Evrópusambandið, nefnilega Noreg. Nú heyrir maður mikið í þessari umræðu af hálfu þeirra sem eru hvað mest á móti Evrópusambandinu að þetta sé ekki samningaviðræður eða aðildarviðræður heldur aðlögunarviðræður, þ.e. að með umsókninni, með því ferli, séum við sjálfkrafa eða kannski ekki sjálfkrafa en alla vega strax á meðan á samningaviðræðum stendur að aðlagast Evrópusambandinu.

Nú finnst mér alveg þess virði að nefna það sem sjálfstæðan punkt hvernig menn segja „aðlagast“ með fyrirlitningu eins og að aðlögun sé í eðli sínu eitthvað neikvætt. Mér finnst það kannski hroki sem við höfum ekki efni á. En eins og hefur komið fram hefur Noregur í tvígang hafnað inngöngu. Ég velti fyrir mér: Var eitthvert ferli í Noregi sem þurfti þá að snúa til baka með? Var Noregur á einhvern hátt búinn að aðlaga sig að Evrópusambandinu með slíkum hætti að það þurfti að spóla til baka eitthvert ægilegt aðlögunarferli?

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti frætt mig um þetta, vegna þess að ég var ekki hér á seinasta kjörtímabili og tók ekki þátt í þeirri ákvörðun að sækja um aðild til að byrja með, en kannski hv. þingmaður geti frætt okkur meira um sögu Noregs í þessu sambandi.