144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu sem fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi hafa lagt fram um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um samninga eða aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu. Það eru mismunandi áherslur uppi, hvernig skilgreina beri þetta ferli, eins og við þekkjum og var til umræðu núna fyrir stundu.

Ég er ekki í hópi þeirra sem gráta það þegar endi er bundinn á aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu. Ég tel að það hafi ekki verið til heilla þegar Alþingi samþykkti vorið 2009 að senda inn umsókn fyrir Ísland að Evrópusambandinu. Ég greiddi því atkvæði. Ég studdi þá málsmeðferð ásamt flestum sem studdu þáverandi ríkisstjórn. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfðum leitað eftir því að efnt yrði til tveggja eða tvíþættrar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Fyrst yrði leitað heimildar hjá þjóðinni til að senda inn aðildarumsókn og að viðræðum loknum mundum við síðan kjósa um niðurstöður samninganna. Því var samstarfsflokkur okkar í ríkisstjórn, Samfylkingin, andvíg og féllumst við á þau sjónarmið, höfðum verið beggja blands, vorið 2009.

Ástæðan fyrir því að ég segi að þetta hafi verið óheillaspor og vanhugsað, og ég ítreka að ég átti sjálfur aðild að því, er sú að við töldum mörg að ferlið væri annars eðlis en reyndin síðan varð. Við töldum að um væri að ræða samningaviðræður í svipuðum dúr og Norðmenn höfðu átt í árið 1972 og síðan aftur á árunum 1993 og 1994. Þær viðræður tóku ekki ýkjalangan tíma. Og meira að segja man ég ekki betur en þáverandi stækkunarstjóri Evrópusambandsins, Ole Rehn, hefði uppi orð um að þetta ferli mundi taka 18 mánuði í hæsta lagi. Fulltrúar innan ríkisstjórnarinnar á þeim tíma töluðu um tvö ár í mesta lagi. Við héldum að um væri að ræða miklu skemmra ferli en reyndin varð.

Í annan stað hafði okkur mörg ekki órað fyrir því hve djúpt þetta ferli var, að ekki var um að ræða viðræður í þeim skilningi sem við mörg höfðum trúað að yrði heldur aðlögun, hvernig kröfur voru settar fram um að stofnanakerfi Íslands, þar á meðal landbúnaðarins, yrði lagað að því sem gerðist innan Evrópusambandsins og að við undirbyggjum lagabreytingar með það fyrir augum að við værum fullsköpuð fyrir Evrópusambandið þegar samningurinn lægi fyrir. Þetta er aðlögunin. Síðan voru veittir styrkir sem við litum mörg á sem smurningu til að örva áhugann innan lands á að ganga í Evrópusambandið. Mér fannst þetta alltaf og hefur fundist þetta hálfósiðlegt, að sækja um aðild til að gá ofan í einhvern poka, hvað við gætum hugsanlega haft upp úr því. Auðvitað sækjum við um aðild og eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu með það í huga að ganga í það, vera hrein og bein. Þannig mundi ég helst vilja orða þá spurningu sem sett yrði fyrir þjóðina. En við sóttum um aðild að Evrópusambandinu án þess að spyrja þjóðina, illu heilli.

Á síðasta kjörtímabili talaði ég ítrekað fyrir því, skrifaði tugi blaðagreina þar sem ég hvatti til þess að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið á grundvelli þeirrar þekkingar sem þegar lægi fyrir. Við mundum horfa til Rómarsáttmálans, við mundum horfa til Maastricht, til Lissabon-sáttmálans og til regluverksins sem við þekkjum öll. Og þótt Malta hafi fengið einhverjar undanþágur fyrir hornsílaveiðar í höfninni heima fyrir eða eitthvað annað ámóta sé hér dregið að húni sem stórkostlegir sigrar um undanþágur þá hef ég aldrei gefið neitt fyrir það. Þetta eru minni háttar atriði þegar um er að ræða að ganga í ríkjasamband sem vill verða ríki. Þetta er mergurinn málsins í mínum huga. Við eigum að koma hreint til dyranna og þess vegna endurtek ég að mér finnst það til góðs þegar bundinn er endi á þetta ferli, mér finnst það gott. Ég er því fylgjandi og hef verið það lengi.

En það eru ekki allir á sama máli og ég. Það eru ekki allir sammála mér um þetta og ég er þeirrar skoðunar að þegar um er að ræða deilumál með þjóð sem klýfur okkur í sundur sé bara ein leið fær. Hún er að skjóta málinu til þjóðarinnar til að taka ákvörðun og skera úr um hvert skuli haldið. Það er hin eina rétta leið. Við erum starfsmenn þjóðarinnar sem hún hefur fengið í hendur vald til að ráða fram úr ýmsum úrlausnarefnum. En ef þjóðin vill taka þetta vald til sín og ákveða sjálf þá gerir hún það. Þetta finnst mér eitt það veigamesta sem þörf er á að breyta í okkar stjórnarskrá, það er að færa vald til þjóðarinnar sem henni ber og hún á að hafa og hún á að geta tekið það í öllum málum og vera miklu frírri til þess en stjórnarskrárnefndin lagði til. Hún lagði til tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu sem voru mjög þröngar. Samkvæmt hennar tillögum má þjóðin ekki krefjast atkvæðagreiðslu um Icesave, svo dæmi sé tekið, eða samninga á borð við Icesave. Þetta á að vera víðara og á að sjálfsögðu að taka til mála eins og Evrópusambandsins, aðlögun eða viðræður eða hvað sem við viljum kalla það. Að sjálfsögðu á að gera það. Þó að ég sé þeirrar skoðunar að við eigum að binda enda á þetta ferli og þó að ég mundi hiklaust greiða atkvæði gegn því að taka upp þráðinn að nýju er ekki þar með sagt að ekki eigi að virða rétt annarra og skoðanir annarra í þeim efnum. Auðvitað á ég að gera það. Þess vegna er ég fylgjandi því að málinu sé skotið til þjóðarinnar.

Ég tel hins vegar fyrir mitt leyti, svo að ég lýsi minni skoðun, að þegar málið fer til umfjöllunar í utanríkismálanefnd þingsins eigi að leita eftir málamiðlun um það hvernig textinn eða spurningin sem skotið er til þjóðarinnar er orðuð. Það getur varla verið einhver heilög ritning sem stendur þar á blaði, sem er óumbreytanleg. Fyrir mitt leyti fyndist mér eðlilegra að spurt væri um það sem málið fjallar um í reynd: Vilt þú, kæri kjósandi, að Ísland haldi til streitu aðlögun að Evrópusambandi með það fyrir augum að ganga þangað inn? Það á að tala alveg hreint út. Um það snýst þetta mál, ekki einhverjar viðræður, eins og það hefur verið orðað. Við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Síðan er annað sem ég undrast stundum að ekki skuli hafa verið rætt betur. Það er að horfa til þeirrar þingsályktunartillögu sem var samþykkt hér á sínum tíma og skoða ýmislegt sem snýr að framkvæmd hennar.

Að lokum þetta. Margir þeirra sem nú leggjast gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um úrlausn í þessu máli voru mjög eindregið á því máli í tíð síðustu ríkisstjórnar að sú leið yrði farin. Ég vildi aldrei leggja lag mitt við þau öfl vegna þess að mér bauð í grun að þetta væri gert ekki aðeins af ást gagnvart lýðræðinu heldur til að sundra ríkisstjórninni og mitt tal beindist alltaf inn í okkar sameiginlegu búðir. Ég vildi sannfæra stjórnarmeirihlutann um að fara þá leið sem ég hef talað fyrir og rifjað upp í máli mínu. En það sannfærir mig um að þarna hafi verið einhver loddaraskapur á ferðinni, ég sannfærist um það þegar menn hafa umpólast hér í þessu máli nú.